Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna finnst mér oftar en ekki þegar dregið er í lottó að samliggjandi tölur komi upp úr drættinum?

Einar Bjarki Gunnarsson

Í íslenska lottóinu eru 40 kúlur, sem eru númeraðar frá 1 og upp í 40, og 5 kúlur eru dregnar út. Þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 2008, en fram að því höfðu kúlurnar verið 38 talsins.

Með samliggjandi tölum er átt við tvær eða fleiri heilar tölur sem hægt er að raða þannig upp að sérhver tala fáist með því að bæta einum við næstu tölu á undan. Til dæmis eru 5 og 6 samliggjandi tölur; 11, 12 og 13 eru samliggjandi tölur; og einnig 26, 27, 28, 29 og 30.

Með hjálp talningarfræðinnar er hægt að reikna líkurnar á að samliggjandi tölur komi upp úr tilteknum lottóútdrætti. Þær reynast vera 42,71%. Samkvæmt líkindafræðinni þýðir þetta að eftir því sem dregið verður oftar í lottóinu mun hlutfall útdrátta, sem hafa samliggjandi tölur, færast sífellt nær 42,71%. Með öðrum orðum ættu samliggjandi tölur að koma upp úr drættinum í um það bil 42,71% tilvika, eða í rúmum tveimur af hverjum fimm dráttum, þegar yfir lengri tíma er litið.

Vísindavefurinn skoðaði alla útdrætti sem framkvæmdir hafa verið í 40 kúlna lottóinu til að athuga hversu oft samliggjandi tölur hafa í raun og veru komið upp úr drættinum. Þegar þetta er skrifað hefur alls verið dregið 176 sinnum og þar af hafa 66 útdrættir haft samliggjandi tölur.

Hlutfall útdrátta sem hafa haft samliggjandi tölur er þá 66/176, sem þýðir að samliggjandi tölur hafa komið upp úr drættinum í 37,5% tilvika, eða í þremur af hverjum átta dráttum. Eins og kom fram að ofan segir líkindafræðin að þetta hlutfall muni færast sífellt nær 42,71% eftir því sem útdráttunum fjölgar í framtíðinni.

Einhverjir lesendur hafa ef til vill áhuga á hliðstæðri tölfræði fyrir 38 kúlna lottóið, sem var starfrækt árin 1998-2008. Þar sem kúlurnar voru færri í því voru líkurnar á að samliggjandi tölur kæmu upp úr drættinum aðeins hærri en fyrir 40 kúlna lottóið, eða 44,56%. Með því að skoða alla þá 1028 útdrætti sem framkvæmdir voru í 38 kúlna lottóinu sést að alls höfðu 477 þeirra samliggjandi tölur.

Þetta þýðir að hlutfall útdrátta sem höfðu samliggjandi tölur var 477/1028, eða 46,40%. Þess vegna komu samliggjandi tölur nánast upp úr öðrum hverjum drætti í 38 kúlna lottóinu. Vert er að taka eftir því að frávik hlutfallsins 46,40% frá líkunum 44,56% er minna en tilsvarandi frávik fyrir 40 kúlna lottóið, sem skýrist af því að dregið hefur verið talsvert oftar í 38 kúlna lottóinu.

Tína má til ýmsa aðra áhugaverða tölfræði um 38 kúlna lottóið. Til dæmis gerðist það á 8 vikna tímabili árið 1999 að samliggjandi tölur komu upp úr hverjum einasta útdrætti. Á hálfsárs tímabili sama ár komu samliggjandi tölur upp úr 19 útdráttum af 25, eða 76% útdrátta. Á 20 vikna tímabili árið 1990 komu samliggjandi tölur fyrir í 15 útdráttum, eða 75% útdrátta. Allt þetta, ásamt þeirri staðreynd að samliggjandi tölur komu að jafnaði upp úr öðrum hverjum drætti í 38 kúlna lottóinu, ætti að skýra hvers vegna spyrjandi hefur tekið sérstaklega eftir þeim.

Þeim sem hafa áhuga á að vita hvers vegna það eru einmitt 42,71% líkur á að samliggjandi tölur komi upp úr lottóútdrætti er bent á svar sama höfundar við spurningunni Hvernig er hægt að reikna líkurnar á að samliggjandi tölur komi upp úr lottóútdrætti?

Myndir:


Höfundur þakkar starfsfólki Íslenskrar getspár fyrir aðstoðina við gerð þessa svars.

Höfundur

Einar Bjarki Gunnarsson

nýdoktor í stærðfræði

Útgáfudagur

27.10.2011

Spyrjandi

Sigurgeir Gíslason

Tilvísun

Einar Bjarki Gunnarsson. „Hvers vegna finnst mér oftar en ekki þegar dregið er í lottó að samliggjandi tölur komi upp úr drættinum?“ Vísindavefurinn, 27. október 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27325.

Einar Bjarki Gunnarsson. (2011, 27. október). Hvers vegna finnst mér oftar en ekki þegar dregið er í lottó að samliggjandi tölur komi upp úr drættinum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27325

Einar Bjarki Gunnarsson. „Hvers vegna finnst mér oftar en ekki þegar dregið er í lottó að samliggjandi tölur komi upp úr drættinum?“ Vísindavefurinn. 27. okt. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27325>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna finnst mér oftar en ekki þegar dregið er í lottó að samliggjandi tölur komi upp úr drættinum?
Í íslenska lottóinu eru 40 kúlur, sem eru númeraðar frá 1 og upp í 40, og 5 kúlur eru dregnar út. Þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 2008, en fram að því höfðu kúlurnar verið 38 talsins.

Með samliggjandi tölum er átt við tvær eða fleiri heilar tölur sem hægt er að raða þannig upp að sérhver tala fáist með því að bæta einum við næstu tölu á undan. Til dæmis eru 5 og 6 samliggjandi tölur; 11, 12 og 13 eru samliggjandi tölur; og einnig 26, 27, 28, 29 og 30.

Með hjálp talningarfræðinnar er hægt að reikna líkurnar á að samliggjandi tölur komi upp úr tilteknum lottóútdrætti. Þær reynast vera 42,71%. Samkvæmt líkindafræðinni þýðir þetta að eftir því sem dregið verður oftar í lottóinu mun hlutfall útdrátta, sem hafa samliggjandi tölur, færast sífellt nær 42,71%. Með öðrum orðum ættu samliggjandi tölur að koma upp úr drættinum í um það bil 42,71% tilvika, eða í rúmum tveimur af hverjum fimm dráttum, þegar yfir lengri tíma er litið.

Vísindavefurinn skoðaði alla útdrætti sem framkvæmdir hafa verið í 40 kúlna lottóinu til að athuga hversu oft samliggjandi tölur hafa í raun og veru komið upp úr drættinum. Þegar þetta er skrifað hefur alls verið dregið 176 sinnum og þar af hafa 66 útdrættir haft samliggjandi tölur.

Hlutfall útdrátta sem hafa haft samliggjandi tölur er þá 66/176, sem þýðir að samliggjandi tölur hafa komið upp úr drættinum í 37,5% tilvika, eða í þremur af hverjum átta dráttum. Eins og kom fram að ofan segir líkindafræðin að þetta hlutfall muni færast sífellt nær 42,71% eftir því sem útdráttunum fjölgar í framtíðinni.

Einhverjir lesendur hafa ef til vill áhuga á hliðstæðri tölfræði fyrir 38 kúlna lottóið, sem var starfrækt árin 1998-2008. Þar sem kúlurnar voru færri í því voru líkurnar á að samliggjandi tölur kæmu upp úr drættinum aðeins hærri en fyrir 40 kúlna lottóið, eða 44,56%. Með því að skoða alla þá 1028 útdrætti sem framkvæmdir voru í 38 kúlna lottóinu sést að alls höfðu 477 þeirra samliggjandi tölur.

Þetta þýðir að hlutfall útdrátta sem höfðu samliggjandi tölur var 477/1028, eða 46,40%. Þess vegna komu samliggjandi tölur nánast upp úr öðrum hverjum drætti í 38 kúlna lottóinu. Vert er að taka eftir því að frávik hlutfallsins 46,40% frá líkunum 44,56% er minna en tilsvarandi frávik fyrir 40 kúlna lottóið, sem skýrist af því að dregið hefur verið talsvert oftar í 38 kúlna lottóinu.

Tína má til ýmsa aðra áhugaverða tölfræði um 38 kúlna lottóið. Til dæmis gerðist það á 8 vikna tímabili árið 1999 að samliggjandi tölur komu upp úr hverjum einasta útdrætti. Á hálfsárs tímabili sama ár komu samliggjandi tölur upp úr 19 útdráttum af 25, eða 76% útdrátta. Á 20 vikna tímabili árið 1990 komu samliggjandi tölur fyrir í 15 útdráttum, eða 75% útdrátta. Allt þetta, ásamt þeirri staðreynd að samliggjandi tölur komu að jafnaði upp úr öðrum hverjum drætti í 38 kúlna lottóinu, ætti að skýra hvers vegna spyrjandi hefur tekið sérstaklega eftir þeim.

Þeim sem hafa áhuga á að vita hvers vegna það eru einmitt 42,71% líkur á að samliggjandi tölur komi upp úr lottóútdrætti er bent á svar sama höfundar við spurningunni Hvernig er hægt að reikna líkurnar á að samliggjandi tölur komi upp úr lottóútdrætti?

Myndir:


Höfundur þakkar starfsfólki Íslenskrar getspár fyrir aðstoðina við gerð þessa svars.

...