Í dag búa um 2,5 milljón manns í Sahara. Flestir þeirra búa í námunda við eyðimerkurvinjar og rækta þar ávaxti, grænmeti og korn. Um 30% íbúanna eru hirðingjar sem ferðast á úlföldum milli eyðimerkurvinja, þar sem þeir stunda viðskipti og taka vistir. Þar sem beitarlönd finnast halda hirðingjarnir oft kýr, kindur og geitur. Mörg lönd í Afríku liggja um eyðimörkina, meðal annars Marokkó, Alsír, Túnis, Líbía, Egyptaland, Máritanía, Malí, Níger, Tsjad, Súdan, Vestur-Sahara og Senegal. Í þessum löndum lifa mörg þjóðarbrot en íbúarnir í Sahara eru yfirleitt af Túareg- eða Tíbúættinni, Arabar eða Berbar. Arabar réðust inn í Sahara eftir að þeir höfðu lagt Egyptaland undir sig árið 642 eftir Krist. Þeir höfðu með sér nýja menningu og trúarbrögð og á sjöundu og elleftu öld breiddist íslamstrú út í Norður-Afríku. Í dag eru flestir íbúar Sahara múslímar. Þjóðarbrot í Sahara eru flest af hamítískum uppruna og eru því skyld Egyptum og Eþíópíumönnum. Talið er að Hamítarnir hafi verið upprunalegir landnámsmenn í Norður-Afríku. Sennilegt þykir að þeir hafi komið frá Arabíuskaganum. Berbar, sem eru hópar af ættflokkum í Norður-Afríku, eru fjölmargir í vesturhluta Sahara þar sem þeir búa í þorpum. Í miðri Sahara eyðimörkinni eru flestir íbúar af Túaregættinni, en hún er komin af Berbaættinni. Túaregar lifa í ættflokkum og búa við eins konar lénsskipulag, þar sem nokkrar fjölskyldur ríkja yfir öðrum. Túaregar eru múslímstrúar en halda í ýmsar fornar hefðir, til dæmis bera karlar þar blæju en ekki konur líkt og tíðkast í mörgum öðrum íslömskum löndum. Konur njóta auk þess mikils frelsis og nafn og eignir ganga að erfðum til dætra. Túaregar voru áður þekktir fyrir að ræna ættflokka í nágrenninu og heimta skatt af fólki sem ferðaðist um eyðimörkina. Á seinni tíð hefur þurrkur og hungursneyð hrakið fólk frá eyðimörkinni og inn í borgir. Úlfaldarækt var áður mikilvæg en nú er hægt að aka á bílum um eyðimörkina og mikilvægi úlfaldalesta fer minnkandi. Tíbú-fólkið er yfirleitt bændur eða úlfaldahirðar og er það þekkt fyrir hreysti og þolgæði í eyðimörkinni. Hjá þeim ríkir feðraveldi. Viðskiptaferðir með úlfaldalestum er enn mikilvæg tekjulind meðal Tíbúmanna. Að auki halda þeir búfé eins og kýr, geitur, asna og kindur. Þeir dveljast yfirleitt á fjallasvæði í norður Tsjad, sem nefnist Tíbesti. Lesið einnig svar Unu Pétursdóttur við spurningunni Hvernig er dýralífið í Sahara?
Heimildir og myndir