Hrossagaukurinn vegur um 115-130 grömm og er um 27 sentímetrar á lengd með rúmlega 6 sentímetra langan gogg. Kjörlendi hans eru opin svæði, oft í kjarrlendi, við mýrar, læki eða ár. Víða í Evrópu er hann algengur við skipaskurði. Á nyrstu varplendum hrossagauksins í Kanada og Rússlandi heldur hann til á túndrum. Rannsóknir hafa sýnt að fæðuval gauksins er fjölbreytt. Á matseðli hans eru ormar, skordýr, krabbadýr og lindýr en einnig étur hann eitthvað af berjum og fræjum. Hrossagaukurinn er ákaflega vel aðlagaður að smádýraáti enda hefur hann langan gogg sem hann stingur niður í jarðveginn og tínir þannig upp smádýr. Hrossagaukurinn verpur hér á landi og er íslenski varpstofninn afar stór, eflaust nokkur hundruð þúsund fuglar. Flug hrossagauksins er einstakt, en hann steypir sér niður úr nokkurra tuga metra hæð og notar ystu stélfjaðrirnar til að hneggja.
Kortið sýnir úbreiðslu hrossagauksins í Evrópu. Guli liturinn merkir sumarvarpstöðvar. Græni liturinn táknar þau svæði þar sem hrossagaukurinn heldur sig allan ársins hring og blái liturinn merkir vetrarstöðvar hans. Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum
- Finna fuglar ekki bragð? eftir Arnþór Garðarsson
- Hvernig geta fuglar fundið ánamaðka í blómabeði eða grasi? eftir Jón Má Halldórsson