Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið Talmúð þýðir „að læra“ á hebresku en vísar yfirleitt til safnrits margra bóka með lögum og margvíslegum túlkunum og útskýringum á ýmsum laga- og ritningargreinum. Næst á eftir Biblíunni, sem hjá gyðingum tekur aðeins til Gamla testamentisins, er Talmúð mikilvægasta rit gyðingdóms. Þetta mikla safnrit inniheldur fornan lærdóm sem talinn er heilagur og varðveitir ýmsar reglur og lög gyðinga. Til eru tvær mismunandi gerðir ritsins, ein frá Babýloníu í núverandi Írak og ein frá Palestínu. Þær eru að mörgu leyti eins, þó sú babýlonska sé umfangsmeiri og því meira notuð. Það er nokkuð óvíst og umdeilt hvenær það var sem lærdómurinn og lögin voru sameinuð í Talmúð, og hverjir gerðu það. Þó er víst að það tók marga mannsaldra að safna og skipuleggja þetta umfangsmikla efni og í aðalatriðum var það gert af rabbínum og svokölluðum amoraim, sem eru ritskýrendur eða fræðimenn.
Talmúð frá Babýloníu, handrit frá 14. öld.
Á þeim tíma þegar verkefnið hófst voru mörg lærdómssetur í Palestínu og Babýloníu og mikil samskipti milli fræðimanna þar. Talmúð-safnritin tvö eru þess vegna mjög lík, þó þau séu skrifuð á ólíkum mállýskum. Talmúðinn frá Palestínu er nokkru styttri og að hluta til ófullgerður. Hann telst vera frá því um 450-500 eftir Krist, þó eitt handrit hans hafi ekki fundist og verið birt fyrr en 1946. Talmúðinum frá Babýloníu var lokið um sjöttu öld eftir Krist. Ritsafnið er bæði á hebresku, upprunalegu máli gyðinga og síðar helgimáli, og arameísku sem var samskiptamál víða í Mið-Austurlöndum í fornöld og móðurmál flestra gyðinga frá og með sjöttu öld fyrir Krist.
Palestínski Talmúðinn var prentaður á Feneyjum 1523-24 og allar seinni útgáfur hans fylgja þessari. Aftur á móti voru hlutar úr babýlonska Talmúðinum prentaðir í fyrsta skipti á Spáni um 1482 og síðan hafa komið út um 100 mismunandi útgáfur. Staðalútgáfan kallast Vilna, eftir borginni Vilnius í Litháen, þar sem hún var prentuð frá og með árinu 1886.
Mikilvægustu bækurnar sem mynda Talmúð heita Mishna, sem þýðir „endurtekið nám“, og Gemara, sem þýðir „fullkomnun“. Við þær er svo bætt ýmsum glósum og skýringum. Orðið Mishna vísar til lagafyrirmæla sem upphaflega voru varðveitt í munnlegri geymd og juku við og útfærðu lög og siðafyrirmæli Tórunnar. Oftast telst Tóra vera fyrstu fimm bækurnar í Gamla testamentinu (Fimmbókaritið), en stundum Gamla testamentið í heild. Samkvæmt gyðingdómi skapaði Guð Tóruna á undan heiminum svo hún inniheldur guðdómlega formúlu fyrir framtíð heimsins og svör við öllum spurningum. Meira að segja Guð sjálfur skoðar Tóruna áður en hann tekur ákvarðanir til þess að forðast þversagnir.
Heildarútgáfa af Talmúð frá Babýloníu.
Mishna skiptist í sex bálka sem kallast sedarim. Þeir greinast svo í nokkurs konar pistla sem nefndir eru massekhtaot og skiptast í enn smærri kafla. Bálkarnir í Mishna fjalla um landbúnað; margvíslegar trúarathafnir og -hátíðir; samlíf hjóna; eignir, fjármál og dómgæslu; helgidóma og að síðustu hreinleika og hreinsunarathafnir, til dæmis varðandi mataræði. Eins og áður sagði voru lögin (Mishna) upphaflega ekki skrifuð, heldur gengu þau mann fram af manni meðal rabbína sem rannsökuðu þau í fræðasetrum Palestínu og Babýloníu. Árin 132-135 eftir Krist gerðu gyðingar í Ísrael uppreisn gegn Rómverjum og í kjölfarið endurreistu þeir hæstaréttinn eða æðstaráðið, sanhedrin, sem var í senn stjórnvald og menntastofnun. Nokkru eftir það var komið föstu skipulagi á Mishna undir stjórn Júda ha-Nasi (Júda prins eða Júda forseti, 135 til um það bil 220), sem þá var í forsvari fyrir sanhedrin. Svo virðist sem Mishna hafi þá fengið það form sem hún hefur enn í dag. Hins vegar er óvíst að hún hafi verið skrifuð niður fyrr en síðar svo geymd hennar var aðallega munnleg fram á miðaldir, og jafnvel lengur.
Orðið Gemara er arameískt og er notað um lögskýringar við Mishna sem urðu til eftir að hún öðlaðist fast form. Upphaflega voru það þessar skýringar sem nefndar voru 'Talmúð', en þegar textinn var prentaður í Basel milli 1578 og 1581, ákváðu ritskoðendur kirkjunnar að þær skyldu kallast 'Gemara'. Síðan þá hefur Talmúð oftast vísað til verksins alls.
Þó Talmúð sé fyrst og fremst safn lagatexta og skýringa á þeim fjallar hann einnig um margvísleg önnur efni. Af þeim má nefna: landbúnað, stjörnuspeki, ráðningu drauma, siðfræði, þjóðhætti, sögu, galdra, stærðfræði, læknisfræði, málshætti og guðfræði. Hlutskipti mannsins, sigrar hans og ósigrar, skipa stóran sess í Talmúð. Til dæmis geymir hann reglur um ábyrgð fólks í fjölskyldu sinni og veröldinni almennt. Einnig fjallar hann um heilsufræði, mataræði og lyfjanotkun.
Þótt Talmúð sé fyrst og fremst safn lagatexta og skýringa á þeim fjallar hann einnig um margvísleg önnur efni. Hér má sjá eina af nokkrum myndum austurríska málarans Carl Schleicher (1825-1903) af rabbína ræða um Talmúð.
Textarnir í Talmúð eru nokkuð sérstakir að málfari og byggingu. Þeir byggjast nefnilega á skýrslum um samræður eða deilur ýmissa fræðimanna. Í sumum tilfellum eru þessir fræðimenn nafngreindir, en oft er það ekki gert og þá merkir það að útleggingin eða skoðunin njóti almennrar viðurkenningar. Stundum eru skýrslurnar um raunverulegar deilur en oft hafa skrifararnir upphugsað röksemdirnar og lagt þær í munn þeim sem gætu hafa notað þær. Þetta ýtir náttúrulega undir margvíslegar túlkanir. Textanum er skipað þannig á blaðsíðurnar að Mishna og Gemara eru í dálki í miðjunni en aðrar skýringar allt í kringum þær. Í Talmúð er stuðst við tiltekna túlkunaraðferð sem kallast Midrash og var upphaflega beitt á Heilaga ritningu. Bæði er mikið vitnað í ritsöfn sem geyma þessa túlkun helgiritanna, og auk þess er aðferðin sjálf notuð í skýringum Gemara við Mishna. Það felst í Midrash að mótsagnir í texta eru útskýrðar með því að endurtúlka hann. Og ef vandamál komu upp eru þau leyst röklega út frá hliðstæðum eða með enn vandlegri textarýni.
Í gegn um tíðina hefur Talmúð oft verið gagnrýndur og honum hafnað sem tilbúningi rabbína. Á átjándu og nítjándu öld olli upplýsingarhreyfing gyðinga afhelgun í menningarlífi þeirra og breytti þar með viðhorfum margra til Talmúðs. Afleiðing þess er sú að margir gyðingar líta á Talmúð sem tímaskekkju frá miðöldum og hafna honum þess vegna. En eftir að gyðingar stofnuðu þjóðríki í Ísrael árið 1948 og menning þeirra gekk í endurnýjun lífdaganna, hefur Talmúð aftur öðlast mikilvægi, sérlega í Ísrael. Forskriftir hans hafa víða áhrif, aðallega á fjölskyldulíf, reglur um mataræði, samkunduhúsin og fyrirkomulag góðgerðasamtaka og ýmissar félagslegrar starfsemi. Ungir íhaldssamir gyðingar lesa líka Talmúð til að finna lausnir á deilum og vandamálum í samtímanum, til dæmis þeim sem tengjast fóstureyðingum eða ofbeldi í samfélaginu.
Heimildir og myndir: