Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins og kunnugt er bera sumar strangtrúaðar múslimskar konur blæju sem þekur ekki eingöngu hár þeirra og axlir heldur einnig andlit þeirra. Ef ferðamenn eru þannig til fara liggur það í hlutarins eðli að erfitt er fyrir lögreglu og útlendingaeftirlit að sannreyna að manneskjan sem fer í gegnum vegabréfsskoðunina sé sú sama og myndin er af í vegabréfinu.
Á flugvöllum í Sádí-Arabíu er þetta leyst á þann hátt að þegar kemur að vegabréfskoðun og vopnaleit fara konurnar inn í sérstakt herbergi sem er eingöngu ætlað konum. Starfsmenn þar eru allar konur og framkvæma þær vopnaleitina og skoða vegabréfin því konurnar mega auðvitað sýna öðrum konum andlit sitt. Áður en gengið er út úr herberginu setja konurnar upp blæjuna á ný.
Eins og lesa má um í svarinu Hvernig er þjóðfélagsástandið í Sádí-Arabíu? er konum þar í landi settar strangar reglur um hvernig þær eiga að vera til fara og hvað þær mega gera. Þær mega til dæmis ekki keyra bíla og mega ekki ferðast einar, vinna eða vera í skóla án skriflegs samþykkis eiginmanna sinna, feðra eða bræðra. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu gefa ekki út opinber skilríki til kvenna. Þær fá svokölluð fjölskylduskilríki sem eru án ljósmynda þar sem þær eru skráðar á framfæri og ábyrgð eiginmanna sinna, feðra eða bræðra. Konurnar eiga þó rétt á því að fá vegabréf en sumir Sádí-Arabískir karlar banna eiginkonum sínum það því þeir geta ekki hugsað sér að til sé ljósmynd af þeim.
Sennilega er framkvæmdin á vegabréfsskoðun í öðrum múslimskum löndum svipuð þeirri í Sádí-Arabíu þegar kemur að því að skoða vegabréf kvenna sem hylja á sér andlitið. Hafa ber þó í huga að margar múslímskar konur hylja alls ekki á sér andlitið heldur einungis hár og axlir og í því felast enginn vandamál við landamæravörslu.
Upplýsingar um hvernig þessu er háttað á vestrænum flugvöllum liggja ekki á lausu og verður því að geta sér til um það hvernig þessum hlutum er háttað þar. Kannski eru til sérstök herbergi þar sem eingöngu starfa konur sem þessar konur geta farið í gegnum en líklegra er að konurnar taki hreinlega niður blæjuna þegar þær koma til dæmis til Evrópu.
Sjá einnig Hvers vegna eru konur íslamstrúar svona kúgaðar í klæðaburði og hversdagslífi?
Myndin er á vefsetri fréttastofunnar Eyewitness news
Helga Sverrisdóttir. „Hvernig fer passaskoðun fram þegar strangtrúaðar múslimakonur með blæju fyrir andlitinu eiga í hlut?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2560.
Helga Sverrisdóttir. (2002, 3. júlí). Hvernig fer passaskoðun fram þegar strangtrúaðar múslimakonur með blæju fyrir andlitinu eiga í hlut? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2560
Helga Sverrisdóttir. „Hvernig fer passaskoðun fram þegar strangtrúaðar múslimakonur með blæju fyrir andlitinu eiga í hlut?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2560>.