Hvort á að gefa börnum sem eru vaxa léttmjólk eða nýmjólk?Stutta og laggóða útgáfan: Samkvæmt íslenskum ráðleggingum ætti að gefa börnum frá tveggja ára aldri léttmjólk og/eða aðrar mjólkurvörur sem eru fituminni en nýmjólk. Áður en spurningunni er svarað í lengra máli er rétt að taka fram að svarið miðast að því að leiðbeina heilbrigðum börnum og foreldrum þeirra á heildargrundvelli. Við sérstakar aðstæður, svo sem heilbrigðisvanda sem tengist efnaskiptum eða vexti, gæti þurft að leita ráða hjá fagfólki, svo sem næringarfræðingi, lækni eða hjúkrunarfræðingi. Hafi fólk áhyggjur af því að barn þrífist illa er vert að skoða þætti eins og orku- og næringarþéttni matarins (þar með talið mjólkurvara) og fjölda máltíða. Börn sem eru yngri en tveggja ára hafa aðrar næringarþarfir en þeir sem eldri eru. Fram að sex mánaða aldri er mælt með því að börn fái eingöngu brjóstamjólk. Ef ungbarn er ekki lagt á brjóst eða ef brjóstamjólkin er ekki nægileg ein og sér fyrstu sex mánuðina er mælt með því að barn fái sérstaka ungbarnablöndu, sem gerð er úr ungbarnaþurrmjólk og soðnu vatni. Á aldrinum sex mánaða til tveggja ára er talið æskilegt að halda áfram brjóstagjöf eða gefa barni stoðmjólk til drykkjar í stað kúamjólkur. Stoðmjólkin er líkari brjóstamjólk að samsetningu en léttmjólk og nýmjólk og hæfir því barninu betur. Börn eldri en tveggja ára ættu að fylgja almennum ráðleggingum um mataræði og næringarefni sem eiga við fyrir börn og fullorðna. Frá tveggja ára aldri er ráðlagt að velja oftar fituminni mjólkurvörur (til dæmis léttmjólk) og halda neyslu feitra mjólkurvara (þar með talið nýmjólkur) í hófi. Ýmsar mjólkurvörur, til dæmis margir ostar, nýmjólk, rjómi og afurðir sem gerðar eru úr þessum vörum, innihalda hlutfallslega mikið af mettaðri fitu, en mikil neysla hennar hefur verið tengd hækkuðu kólesteróli í blóði sem aftur tengist aukinni hættu á kransæðasjúkdómum síðar meir. Hæfilegt er að fá sér tvö glös, diska eða dósir af mjólk eða mjólkurmat á dag, eða sem samsvarar um 500 ml að hámarki. Hæfileg neysla mjólkurvara er talin hafa jákvæð áhrif á heilsufar, þar á meðal á blóðfitur, blóðþrýsting og þróun sykursýki af gerð 2. Óhófleg mjólkurneysla á hinn bóginn (yfir 500 ml á dag) stuðlar að mikilli prótínneyslu sem rannsóknir benda til að geti hraðað vexti barna umfram það sem æskilegt er. Heimildir og mynd:
- Lýðheilsustöð (2006). Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri (bæklingur). (Sótt 8. 7. 2014).
- Manneldisráð og Miðstöð heilsuverndar barna (2009). Næring ungbarna (bæklingur), 2. útgáfa. (Sótt 8. 7. 2014)
- Uauy R og Dangour AD (2009). Fat and Fatty Acid Requirements and Recommendations for Infants of 0-2 Years and Children of 2-18 Years. Annals of Nutrition and Metabolism 2009;55:76-96.
- Mynd: Raw Milk Outbreak Sickens Eight Children | Western Institute for Food Safety and Security. (Sótt 25. 8. 2014).