Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bókin The Clay Marble er skrifuð af taílenska rithöfundinum Minfong Ho. Bókin segir sögu tveggja stúlkna, Döru og Jantu, og gerist í Kambódíustríðinu sem geisaði 1979-1989. The Clay Marble nálgast því skilgreiningu sögulegrar skáldsögu, þar sem hún segir frá afdrifum persóna sinna í sögulegu umhverfi, raunverulegu stríði.
Kambódía hafði raunar áður orðið fyrir árásum Bandaríkjamanna og Suður-Víetnama í Víetnamstríðinu eftir að Sihanouk prins hafði verið steypt af stóli og lýðveldi stofnað. Eftir Víetnamstríðið var því uppreisnarástand í Kambódíu og Rauðu khmerarnir komust til valda 1975 og er sú stjórn jafnan kölluð ógnarstjórn Pols Pots enda létust þá milljónir manna vegna hungursneyðar og ofsókna.
Kambódíustríðið hófst þegar Víetnamar réðust inn í Kambódíu og börðust þar við tvær fylkingar heimamanna, Rauðu khmerana og andstöðuhóp Sihanouks prins. Mikill fjöldi flóttamanna streymdi frá Kambódíu til Taílands, og það var neyð þeirra sem hvatti Minfong Ho til að hverfa frá akademískum ferli í Cornell háskólanum í Bandaríkjunum og gerast hjálparstarfsmaður í flóttamannabúðum á landamærum Kambódíu og Taílands.
Minfong Ho fæddist í Burma og bjó sem barn í Singapore og Taílandi, og lærði meðal annars þrjú tungumál, kínversku, taílensku og ensku. Eftir háskólanám í Taílandi fór Ho til Bandaríkjanna í frekara nám, þar sem hún hóf ritferill sinn, að sögn til að geta skrifað um Taíland, landsins sem hún saknaði.
Störf hennar í flóttamannabúðunum komu henni í snertingu við marga kambódíska flóttamenn og segja má að sagan sem Ho skrifar sé nokkurskonar summa þeirrar reynslu sem flóttafólkið miðlaði henni. En þótt The Clay Marble nálgist sögulegu skáldsöguna, hvað varðar sögusvið, er sagan fyrst og fremst skáldsaga. Ho er ekki að segja eigin reynslusögu eða að byggja á sagnfræði, hennar er ekki að segja frá raunverulegu fólki og nota sagnfræðilegar heimildir. En hún hefur annan sannleik fram að bjóða, þann almenna sannleik sem Aristóteles bendir á í riti sínu Um skáldskaparlistina: nefnilega að skáldskapurinn er heimspekilegri en sagnfræðin því hann segir sögu ákveðinna manngerða við ákveðnar aðstæður.
Að ýmsu leyti má líta á það sem tilviljun að sagnfræðin og sögulega skáldsagan segja frá persónum sem bera nöfn raunverulegs fólks, og því má telja að The Clay Marble sé ekki síður byggð á sönnum atburðum, en í öðrum skilningi þó. Markmið Minfong Ho var að skrifa sögu og persónur sem fólk gæti samsamað sig með og skilið á þann hátt. Henni virðist hafa tekist það því The Clay Marble er víða notuð til kennslu, sér í lagi í Bandaríkjunum, þar sem mikil áhersla er lögð á að kynna sér sögulegan bakgrunn skáldsögunnar.
Unnar Árnason. „Er bókin The Clay Marble byggð á sönnum staðreyndum?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2485.
Unnar Árnason. (2002, 12. júní). Er bókin The Clay Marble byggð á sönnum staðreyndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2485
Unnar Árnason. „Er bókin The Clay Marble byggð á sönnum staðreyndum?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2485>.