Japanir hernámu Víetnam í heimsstyrjöldinni síðari. Þá var við völd í Frakklandi Vichy-stjórnin svonefnda sem starfaði náið með Þjóðverjum og þar með Japönum. Raunar höfðu Þjóðverjar hernumið Norður- og Vestur-Frakkland. Frönsku embættismennirnir í Víetnam hlýddu Vichy-stjórninni sem skipaði þeim að hlíta fyrirmælum Japana sem þeir og gerðu líkt og keisarinn og embættisaðallinn víetnamski. Eigi að síður komu Japanir fram við landsmenn af hroka og sýndu þeim yfirgang. Þetta gaf víetnömskum kommúnistum undir forystu Ho Chi Minh tækifæri til að skipuleggja andspyrnuhreyfingu gegn Japönum og um leið raunar gegn leifunum af franska embættisveldinu og víetnamska embættisaðlinum. Einhvern stuðning mun hann hafa fengið frá Bandamönnum í heimsstyrjöldinni (mest Bretum og Bandaríkjamönnum) en aðstæður leyfðu ekki mikið af slíku. Engu að síður var andspyrnuhreyfingin sigursæl. Þegar heimsstyrjöldinni var að ljúka 1945 afhentu japanskar hersveitir andspyrnuhreyfingunni öll völd í landinu, væntanlega gegn loforðum um grið. Frakkland laut nú stjórn þjóðernissinnanns de Gaulle sem barist hafði með bandamönnum og öll ríkisstjórn hans að frönskum kommúnistum meðtöldum ákvað að endurheimta nýlendu sína í Víetnam og hóf stríð gegn nýskipaðri stjórn Ho Chi Minh. Keisarinn og það sem eftir lifði af aðlinum víetnamska gekk í lið með Frökkum. Úr þessu varð níu ára borgarastyrjöld sem Bandaríkjastjórn blandaðist æ meir í. Hún kostaði stríð Frakka að mestu leyti, starfaði náið með andkommúnískum Víetnömum og fékk Frakka til að „endurreisa“ keisaradæmið. Stríðinu lauk með samkomulagi í Genf 1954. Víetnam var skipt í tvennt. Norðurhlutinn kom í hlut Ho Chi Minh og manna hans en suðurhlutinn í hlut keisarastjórnarinnar. Ekki var keisarinn samt lengi við völd því að forsætisráðherra hans, sem var náinn bandamaður Bandaríkjanna, breytti landinu í lýðveldi með sjálfan sig sem forseta. Hann hyglaði mjög kaþólskum minnihluta á kostnað búddista, kom á einræði og endurreisti landeigendaveldi yfir smábændum í sveitum Suður-Víetnam. Ólga jókst þar mjög. Í Genfarsamningnum 1954 var ákvæði um að 1957 skyldi Víetnam sameinað í kjölfar frjálsra kosninga undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Ríkistjórn Norður-Víetnam krafðist þess að við þetta ákvæði yrði staðið en stjórn Suður-Víetnam neitaði því með stuðningi Bandaríkjastjórnar.
Um 1960 hófst Víetnamstríðið síðara. Deilt er um hver hafi átt hér frumkvæðið, kúgaðir smábændur í Mekong-ósunum í Suður-Víetnam eða ríkisstjórnin í Norður-Víetnam. Sennilega hafa báðir átt hér hlut að máli. Allavega er ljóst að skæruliðarnir réðu frá upphafi mestu í sveitum landsins en stjórn Suður-Víetnam og Bandaríkjamenn réðu borgunum. Stríð þetta var á landi eingöngu háð í Suður-Víetnam en hins vegar gerðu bandarískar flugvélar miklar loftárásir á Norður-Víetnam. Í upphafi voru skæruliðar, sem andstæðingarnir nefndu „Viet-Cong“, fyrst og fremst smábændur frá Suður-Víetnam en þegar leið á stríðið fóru þjálfaðar hersveitir frá Norður-Víetnam að streyma suður eftir skæruliðunum til aðstoðar. Um leið fjölgaði stöðugt bandarískum hersveitum í landinu og voru bandarískir hermenn þar mörg hundruð þúsund þegar mest var. Samtímis gerðust hersveitir Saigon-stjórnar, en svo nefndist bandarísksinnuð ríkisstjórn Suður-Víetnam, æ værukærari í hernaði enda voru stjórnarbyltingar tíðar í Saigon, spilling var þar mikil og alls kyns átök. Árið 1973 var gert nokkurs konar vopnahlé. Í kjölfar þess tóku hersveitir „Viet-Cong“ nær öll völd í landinu utan stórborgarinnar Saigon. Stríðinu lauk með því að norður-víetnamskar hersveitir ásamt suður-víetnömskum bandamönnum hertóku Saigon árið 1975. Því lauk sem sagt með algerum hernaðarsigri afkomenda skæruliðahreyfingarinnar frá heimsstyrjöldinni síðari og eina hernaðarósigri sem Bandaríkin hafa orðið fyrir. En það Víetnam sem nú laut allt öruggri stjórn þjóðernissinnaðra kommúnista var sundursprengt og lamað eftir næstum þrjátíu ára samfellt stríð. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað eru kommúnistaríki heimsins mörg? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvað heitir gjaldmiðillinn í Víetnam? eftir SHJ
- Wikipedia.com - Víetnam. Sótt 22.6.2010.
- Wikipedia.com - Bandarískir hermenn. Sótt 22.6.2010.