Hvað gerði Torfhildur skáld merkilegt?Torfhildur Hólm (1845-1918) varð fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldsögu. Skáldsagan bar titilinn Brynjólfur Sveinsson biskup: Skáldsaga frá 17. öld og kom út í Reykjavík 1882. Þetta var einnig fyrsta sögulega skáldsagan í íslenskum bókmenntum. Torfhildur Hólm var afkastamikill höfundur og einn fyrsti íslenski höfundurinn sem lifði eingöngu af ritstörfum. Þetta tókst henni með styrk frá ríkinu og með því að gefa sjálf út skáldsögur sínar og önnur skrif í tímaritum sínum Draupni (1891-1908), Dvöl (1901-17) og Tíbrá (1892-93). Torfhildur fluttist til Winnipeg í Kanada rúmlega þrítug árið 1876 og hóf rithöfundarferil sinn þar með smásögum sem hún birti í tímaritinu Framfara árið 1878. Þar komu einnig út fyrstu sögulegu skáldsögur hennar, Brynjólfur Sveinsson biskup (1882) og Elding (1889). Árið 1889 fluttist Torfhildur aftur heim til Íslands og á næstu þremur áratugum sendi hún frá sér fleiri sögulegar skáldsögur og birti smásögur í tímaritum. Við heimkomuna var Torfhildi veittur styrkur til ritstarfa, fyrstri íslenskra kvenna. Sú styrkveiting var þó ekki óumdeild og ári seinna var styrkurinn lækkaður og honum breytt í styrk til hennar sem ekkju. Lengra voru íslenskir karlar á Alþingi ekki komnir í jafnréttismálum árið 1889. Myndir:
- Félagsbréf, 8. árgangur 1962, 25. tölublað - Timarit.is. (Sótt 13.02.2018).