Um uppruna Karíumanna sem þjóðar er á hinn bóginn ekki vitað með vissu en gríski sagnaritarinn Heródótos frá Halikarnassos taldi að Karíumenn væru afkomendur Mínóanna á Krít sem hin mínóíska menning er kennd við. Karía heyrði síðan undir Persaveldi á þessum tíma. Másolos var því konungur Karíu en um leið landstjóri (satrap) í Persaveldi og grafhýsið var reist í höfuðstaðnum Halikarnassos til minningar um hann og til þess að hýsa jarðneskar leifar hans að honum látnum en hann lést árið 353 f.Kr. Másolos hafði sjálfur látið hefjast handa við byggingu grafhýsisins en það var eiginkona hans og systir, Artemisia önnur, sem sá um byggingu þess á seinni stigum; henni entist þó ekki ævin til þess að sjá verkinu fulllokið. Rómversku rithöfundarnir Vitruvius og Plinius eldri geta báðir grafhýsisins í ritum sínum. Grafhýsið sem var alls um 43 metrar að hæð stóð á háum fæti sem var um 30 metrar að lengd og 36 metrar að breidd. Þrjátíu og sex marmarasúlur báru þakið uppi eða níu á hverri hlið en þakið sjálft var pýramídalagað. Arkitekt að nafni Pýþíos eða Pýþeos hannaði grafhýsið. Það var alsett marmaraplötum en veggir þess voru úr múrsteinum. Það var skreytt höggmyndum sem sýndu ýmsar goðsagnaverur og voru fengnir til þess fjórir myndhöggvarar, sem hver um sig skreytti eina hlið á grafhýsinu. Þeir hétu Leókares, Bryxías, Skópas og Praxíteles en myndhöggvarinn Tímóþeos mun einnig hafa komið við sögu. Grafhýsið stóð fram á 15. öld en var þá rifið niður svo að byggja mætti kastala. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver voru sjö undur veraldar? eftir HMH
- Hvað kom fyrir sjö undur veraldar? eftir Alexander Kristinsson og Sólrúnu Sigurðardóttur
- Getið þið sýnt mér kort af sjö undrum veraldar? eftir JGÞ
- National Geographic News. Sótt 22.9.2009.