Spyrjandi á við það til dæmis að tímasetning sólseturs færist örar á klukkunni en sólaruppkoma frá degi til dags á vorin, en á haustin færist sólsetrið örar. Þetta er rétt athugað og má sjá það til dæmis í Almanaki Háskólans sem kemur út á hverju ári. En hér er ekki allt sem sýnist því að nákvæm tímasetning hádegis færist líka til yfir árið, frá því að vera til dæmis kl. 13:42 á staðartíma í Reykjavík um miðjan febrúar til þess að vera kl. 13:11 um mánaðamótin október-desember. Ef við skoðum tímalengdina frá sólaruppkomu til hádegis annars vegar og hins vegar tímann frá hádegi til sólseturs á sama degi, þá sjáum við að þessi tvö tímabil eru alltaf sem næst jafnlöng. Lenging og stytting dagsins er því alltaf jafnmikil í báða enda ef deginum er skipt við raunverulegt hádegi þegar sólin er í hásuðri á himninum. Þannig hefur spurningin breyst í höndum okkar svo að nú er eðlilegast að spyrja í staðinn: Hvers vegna færist þá hádegið svona til miðað við klukkuna? Svarið við því tengist svokölluðum tímajöfnuði en um hann er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna gengur sólúrið ekki jafnt yfir árið?
Mynd: HB