Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru galdrar til?

Ólína Þorvarðardóttir

Galdur felur í sér tilraunakennda þekkingarleit, sem er að hluta til byggð á eftirfarandi:

  • athugun á lögmálum og náttúrukröftum,
  • trú mannsins á æðri máttarvöld,
  • trú hans á eigin getu til þess að ná sambandi við og virkja innri sem ytri krafta.
Sé grennslast fyrir um eðli galdraathafna má segja að þau feli í sér viðleitni mannsins til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður eftir þeim leiðum sem hann telur færar hverju sinni. Í því ljósi má með nokkrum sanni segja að galdur sé tímalaust fyrirbæri; að hann sé og hafi alltaf verið til.

Í læknavísindum, hátækni, erfðafræðum, lyfjafræði, það er að segja í ótalmörgum vísinda- og tæknigreinum er verið að fremja flókna galdra sem venjulegu fólki er ofvaxið að skilja. Ritmálið sem við notum eins og sjálfsagðan hlut var í öndverðu samþætt fornum galdraathöfnum. Ýmsir listrænir gjörningar og margar ómeðvitaðar athafnir manna eru af sama toga.

Orðið galdur er dregið af sögninni að gala og upphafleg merking þess er „töfrasöngur“ eða „gjallandi“ (Íslensk orðsifjabók 1989, 225). Samkvæmt skýringum í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs felur galdurinn annarsvegar í sér fjölkynngi – en hún útheimtir einhvers konar þekkingu eins og orðið ber með sér – eða fordæðuskap sem var meingjörðargaldur, að einhverju leyti knúinn fram af andhita eða ófreskigáfum. Hinsvegar merkir orðið einnig vandi eða þraut (Íslensk orðabók 1983, 262-63). Öll eru þessi hugtök margræð í merkingu sinni, svo að ljóst má vera að það er ekki einhlítt að skilgreina hvað sé hið eiginlega inntak galdurs.

Norrænar fornbókmenntir vitna um heiðnar trúarrætur galdursins, en einnig um þá þekkingu og tækni sem iðjan krafðist. Guðríður Þorbjarnardóttir kvaðst hvorki vera „fjölkunnig né vísindakona“ er hún aðstoðaði völvuna við seiðinn í Eiríks sögu rauða (4.k.) Orðalagið vísar vissulega til kunnáttunnar sem galdraiðjan fól í sér, en ýmsar galdraathafnir, til dæmis seiðurinn útheimtu auk þess einhvers konar „helgisiði“ eða serimóníur. Er þá ónefndur andhitinn sem jafnan virðist fylgja íslensku fjölkynngisfólki og birtist meðal annars í illu auga, sem stundum er getið í Íslendingasögum, og í hæfileika kraftaskálda sem gátu kveðið mönnum örlög.

Hugtakið galdur (lat. magice, magica) hefur í gegnum tíðina verið nátengt bæði trúarbrögðum og vísindum. Annars vegar felur galdurinn í sér yfirskilvitlega getu galdramanns til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hins vegar felur hann í sér gjörning sem getur verið allt að því listræn athöfn. Í báðum tilvikum þarf galdramaðurinn að búa yfir einhverskonar verkkunnáttu, til dæmis þegar ristar eru rúnir eða galdrastafir -- en þau tákn voru fyrr á öldum álitin búa yfir sjálfstæðum áhrifamætti. Þannig má segja að galdurinn tengist bæði ritlist og skáldskap eða vísindum og listum af ýmsu tagi.

Í evrópskum fræðum hafa hugtökin hágaldur (e. high magic) og lággaldur (e. low magic) verið notuð til þess að greina á milli þess sem við Íslendingar höfum jafnan nefnt lærðan galdur og kukl eða galdratilburði. Hágaldur var iðkaður af lærðum mönnum sem tvinnuðu saman vísindahlutverk og prestshlutverk. Hann byggðist á flóknum, þróuðum kenningum um gang himintungla og spiritus mundi eða alheimsandann sem menn trúðu að unnt væri að virkja eða ná sambandi við, og var stundaður í tengslum við ýmis náttúruvísindi, gullgerðarlist og stjörnuspeki (Scarre 1987, 7). Hugtakið lággaldur hafa evrópskir fræðimenn hins vegar notað um þau alþýðufræði sem ólærðir einstaklingar iðkuðu og byggðu á sjálfsprottinni þjóðlegri hefð, þar á meðal munnmælum.

Í kristnum sið, og þó einkum eftir að vísindaiðkun í nútímaskilningi tók að þróast, hefur galdur einatt verið settur í samband við einhverskonar villukenningar, ýmist lagður að jöfnu við villutrú eða röng vísindi. Allt fram á 16. öld gilti hið aristótelíska viðhorf í Evrópu að leyndir dómar náttúrukraftanna heyrðu ekki undir vísindi, og lengi stóð um það styr innan kirkjunnar og háskólasamfélagsins í Evrópu hvort gera ætti greinarmun á galdri og náttúruvísindum (Copenhaver 1990, 167 og 270-74; Scarre 1987, 8).

Della Porta, höfundur þess fræga rits Magia naturalis (1558), var óskólagenginn maður. Hann helgaði þó líf sitt því að fá náttúrugaldur viðurkenndan sem lögleg vísindi, og vildi sýna fram á að verkun galdraathafna stafaði ekki af ákalli til æðri máttarvalda eða siðum og háttum tengdum þeim, heldur af náttúruverkan efnanna. Má því ljóst vera að milli galdurs og vísinda liggja slungnir þræðir, dularfull líftaug sem tengir fortíð við nútíð í menningu og framþróun samfélaga.

Sé litið til sögunnar má því segja að galdurinn sé á vissan hátt þekkingar- og sjálfsbjargarviðleitni mannsins á öllum tímum. Í þeim skilningi eru galdrar vissulega til og svo mun verða á meðan þekkingar- og sköpunarþrá mannsins er til staðar.



Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Rvk. 1989.
  • Copenhaver, B.P. 1990: „Natural magic, hermetism, and occultism“. Reappraisals of the Scientific Revolution. Ritstjórar David C. Lindberg og Robert Westman. Cambridge, 261-301.
  • Henry, John 1997: The Scientific Revolution and the Origins of Modern Science. Houndmills/Basingstoke/Hampshire.
  • Eiríks saga rauða. Íslendingasögur og þættir I. Bragi Halldórsson o.fl. sáu um útgáfuna. Reykjavík 1987.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Rvk. 1983.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • Scarre, Geoffrey 1987: Witchcraft and Magic in 16th and 17th Century Europe. London.

Hægt er að lesa meira um galdra og fjölkynngi í þessum svörum:

Höfundur

Dr. Phil. í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði

Útgáfudagur

19.4.2002

Spyrjandi

Stefán Páll Jónsson
Daði Rúnarsson
Eyvindur Örn Barðason

Tilvísun

Ólína Þorvarðardóttir. „Eru galdrar til?“ Vísindavefurinn, 19. apríl 2002, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2323.

Ólína Þorvarðardóttir. (2002, 19. apríl). Eru galdrar til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2323

Ólína Þorvarðardóttir. „Eru galdrar til?“ Vísindavefurinn. 19. apr. 2002. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2323>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru galdrar til?
Galdur felur í sér tilraunakennda þekkingarleit, sem er að hluta til byggð á eftirfarandi:

  • athugun á lögmálum og náttúrukröftum,
  • trú mannsins á æðri máttarvöld,
  • trú hans á eigin getu til þess að ná sambandi við og virkja innri sem ytri krafta.
Sé grennslast fyrir um eðli galdraathafna má segja að þau feli í sér viðleitni mannsins til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður eftir þeim leiðum sem hann telur færar hverju sinni. Í því ljósi má með nokkrum sanni segja að galdur sé tímalaust fyrirbæri; að hann sé og hafi alltaf verið til.

Í læknavísindum, hátækni, erfðafræðum, lyfjafræði, það er að segja í ótalmörgum vísinda- og tæknigreinum er verið að fremja flókna galdra sem venjulegu fólki er ofvaxið að skilja. Ritmálið sem við notum eins og sjálfsagðan hlut var í öndverðu samþætt fornum galdraathöfnum. Ýmsir listrænir gjörningar og margar ómeðvitaðar athafnir manna eru af sama toga.

Orðið galdur er dregið af sögninni að gala og upphafleg merking þess er „töfrasöngur“ eða „gjallandi“ (Íslensk orðsifjabók 1989, 225). Samkvæmt skýringum í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs felur galdurinn annarsvegar í sér fjölkynngi – en hún útheimtir einhvers konar þekkingu eins og orðið ber með sér – eða fordæðuskap sem var meingjörðargaldur, að einhverju leyti knúinn fram af andhita eða ófreskigáfum. Hinsvegar merkir orðið einnig vandi eða þraut (Íslensk orðabók 1983, 262-63). Öll eru þessi hugtök margræð í merkingu sinni, svo að ljóst má vera að það er ekki einhlítt að skilgreina hvað sé hið eiginlega inntak galdurs.

Norrænar fornbókmenntir vitna um heiðnar trúarrætur galdursins, en einnig um þá þekkingu og tækni sem iðjan krafðist. Guðríður Þorbjarnardóttir kvaðst hvorki vera „fjölkunnig né vísindakona“ er hún aðstoðaði völvuna við seiðinn í Eiríks sögu rauða (4.k.) Orðalagið vísar vissulega til kunnáttunnar sem galdraiðjan fól í sér, en ýmsar galdraathafnir, til dæmis seiðurinn útheimtu auk þess einhvers konar „helgisiði“ eða serimóníur. Er þá ónefndur andhitinn sem jafnan virðist fylgja íslensku fjölkynngisfólki og birtist meðal annars í illu auga, sem stundum er getið í Íslendingasögum, og í hæfileika kraftaskálda sem gátu kveðið mönnum örlög.

Hugtakið galdur (lat. magice, magica) hefur í gegnum tíðina verið nátengt bæði trúarbrögðum og vísindum. Annars vegar felur galdurinn í sér yfirskilvitlega getu galdramanns til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hins vegar felur hann í sér gjörning sem getur verið allt að því listræn athöfn. Í báðum tilvikum þarf galdramaðurinn að búa yfir einhverskonar verkkunnáttu, til dæmis þegar ristar eru rúnir eða galdrastafir -- en þau tákn voru fyrr á öldum álitin búa yfir sjálfstæðum áhrifamætti. Þannig má segja að galdurinn tengist bæði ritlist og skáldskap eða vísindum og listum af ýmsu tagi.

Í evrópskum fræðum hafa hugtökin hágaldur (e. high magic) og lággaldur (e. low magic) verið notuð til þess að greina á milli þess sem við Íslendingar höfum jafnan nefnt lærðan galdur og kukl eða galdratilburði. Hágaldur var iðkaður af lærðum mönnum sem tvinnuðu saman vísindahlutverk og prestshlutverk. Hann byggðist á flóknum, þróuðum kenningum um gang himintungla og spiritus mundi eða alheimsandann sem menn trúðu að unnt væri að virkja eða ná sambandi við, og var stundaður í tengslum við ýmis náttúruvísindi, gullgerðarlist og stjörnuspeki (Scarre 1987, 7). Hugtakið lággaldur hafa evrópskir fræðimenn hins vegar notað um þau alþýðufræði sem ólærðir einstaklingar iðkuðu og byggðu á sjálfsprottinni þjóðlegri hefð, þar á meðal munnmælum.

Í kristnum sið, og þó einkum eftir að vísindaiðkun í nútímaskilningi tók að þróast, hefur galdur einatt verið settur í samband við einhverskonar villukenningar, ýmist lagður að jöfnu við villutrú eða röng vísindi. Allt fram á 16. öld gilti hið aristótelíska viðhorf í Evrópu að leyndir dómar náttúrukraftanna heyrðu ekki undir vísindi, og lengi stóð um það styr innan kirkjunnar og háskólasamfélagsins í Evrópu hvort gera ætti greinarmun á galdri og náttúruvísindum (Copenhaver 1990, 167 og 270-74; Scarre 1987, 8).

Della Porta, höfundur þess fræga rits Magia naturalis (1558), var óskólagenginn maður. Hann helgaði þó líf sitt því að fá náttúrugaldur viðurkenndan sem lögleg vísindi, og vildi sýna fram á að verkun galdraathafna stafaði ekki af ákalli til æðri máttarvalda eða siðum og háttum tengdum þeim, heldur af náttúruverkan efnanna. Má því ljóst vera að milli galdurs og vísinda liggja slungnir þræðir, dularfull líftaug sem tengir fortíð við nútíð í menningu og framþróun samfélaga.

Sé litið til sögunnar má því segja að galdurinn sé á vissan hátt þekkingar- og sjálfsbjargarviðleitni mannsins á öllum tímum. Í þeim skilningi eru galdrar vissulega til og svo mun verða á meðan þekkingar- og sköpunarþrá mannsins er til staðar.



Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Rvk. 1989.
  • Copenhaver, B.P. 1990: „Natural magic, hermetism, and occultism“. Reappraisals of the Scientific Revolution. Ritstjórar David C. Lindberg og Robert Westman. Cambridge, 261-301.
  • Henry, John 1997: The Scientific Revolution and the Origins of Modern Science. Houndmills/Basingstoke/Hampshire.
  • Eiríks saga rauða. Íslendingasögur og þættir I. Bragi Halldórsson o.fl. sáu um útgáfuna. Reykjavík 1987.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Rvk. 1983.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • Scarre, Geoffrey 1987: Witchcraft and Magic in 16th and 17th Century Europe. London.

Hægt er að lesa meira um galdra og fjölkynngi í þessum svörum:

...