Nýlega fór ég að skoða stafrænar myndavélar og vega og meta kosti þeirra og galla. Mér sýnist að helstu gallarnir séu lítið minni (sumar nota gömlu 1.44mb disklingana), rándýrt aukaminni og lítil ending á rafhlöðum. - Spurning mín er sú, hvort ekki mætti nota stafrænar segulbandsspólur til að geyma myndir á í myndavélinni (hvað eru þær mörg MB?) og hvort þær hátæknirafhlöður sem nú eru notaðar í farsíma, mætti ekki nota í staðinn fyrir gömlu 1,5 V rafhlöðurnar.Nokkrar leiðir eru færar til að geyma kyrrmyndir í stafrænni myndavél og hafa þær mismunandi kosti og galla. Þeir þættir sem helst þarf að taka tillit til við val á geymsluformi eru orkunotkun, geymslurými, hraði og verð. Segulbandsspólur koma vel út í tveimur atriðum af þessum fjórum. Hægt er að geyma mikið á þeim, til dæmis 11 GB af gögnum á 60 mínútna "mini DV" spólu, sem er orðin algeng í stafrænum myndbandstökuvélum. Spólurnar sjálfar eru einnig mjög ódýrar. Gallarnir eru hins vegar takmarkaður hraðinn og mikil orkunotkun. Það er ekki hægt að sækja mynd beint, heldur þarf að spóla fram og til baka. Það krefst mikillar orku miðað við aðrar leiðir og er hægvirkt. Þetta er trúlega helsta ástæðan fyrir því að segulböndin eru ekki notuð í kyrrmyndavélum. Um rafhlöðumál er það að segja að tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að nota nýjustu rafhlöður í stafrænar myndavélar. Kostnaðarsjónarmið ráða líklega mestu um að þær eru ekki meira notaðar en raun ber vitni. Reyndar eru LCD-skjáirnir, sem eru algengir á slíkum vélum, líklega orkufrekasti hluti þeirra. Með því að stilla notkun þeirra í hóf má lengja líftíma rafhlaðanna verulega. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hver er stærsti harði diskur í heimi og hver á hann? eftir Bergþór Jónsson
- Ég er með stafrænar myndir í mikilli upplausn. Ef ég minnka þær og set á vef taka þær þá ekki minna pláss? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig verka rafhlöður í farsímum? eftir Ágúst Kvaran