Þegar maður er með geislamús og hreyfir músina þá hreyfist örin á skjánum líka. Hvernig virkar þessi geisli og er sama hvernig ljósaperan er á litinn?Tölvumús þjónar því hlutverki að færa bendil til á tölvuskjánum. Mýsnar voru vélrænar fram að síðustu aldamótum en síðan tóku "ljóskurnar" yfir. Ljóska er mús þar sem í stað vélrænu hreyfiskynjaranna eru ljósgjafi, hraðvirk myndavél og örtölva sem ber saman myndir teknar með stuttu millibili. Undir vélrænni mús er hrjúf kúla, sem snýst þegar músin er hreyfð til á stömu undirlagi. Upp að kúlunni liggja tvö hjól. Annað með snúningsás þvert á lengdarás músarinnar og hitt með snúningsás í stefnu lengdaráss. Hreyfing í stefnu annars ássins snýr hinu hjólinu. Á þessum ásum eru líka stærri hjól með gataröð nálægt brúnum. Öðru megin við hvort hjól er ljósgjafi og hinu megin tveir ljósnemar. Þegar hjólin snúast sjá nemarnir blikkandi ljós í gegnum götin. Rafeindabúnaður telur ljósblossana og sendir þær upplýsingar til tölvunnar. Fjöldi ljóspúlsa segir til um færslu músarinnar. Hvoru gatahjóli fylgja tveir ljósnemar til að greina á milli færslustefnanna "áfram" og "aftur á bak".

Í tölvumúsum í dag er ljósgjafi, hraðvirk myndavél og örtölva sem ber saman myndir teknar með stuttu millibili.
- File:Uva pisquera-Chile.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 25.09.2017).
- Seinni myndin er gerð af höfundi svarsins.