með svefnóværð mikilli því ekki hafði hún fyrri fest blund á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún fór að láta illa í svefninum. Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur kom að henni sama óværðin.Bóndanum á bænum, Jóni þessum, tókst að reka "næturgestinn" af höndum þeirra en sá fór ekki langt heldur tók að ásækja bóndann í Tjarnarkoti þarna í nágrenninu. Jón var þá fenginn til að flæma drauginn þaðan líka og
fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað sem nú er búð sú í Vogum sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis þaðan sem hann væri kominn og gjöra aldei framar mein af sér í Vogum.Upp frá því segir ekki mikið af þessum ógæfusama ferðamanni, nema að ekki þótti alltaf allt með felldu í Tuðru. Á seinni tímum hafa svo komið til aðrar draugasögur sem tengjast akveginum við Vogastapa. Samkvæmt þeim er þar á kreiki bíldraugur. Eftir lýsingum að dæma stendur hann við vegbrúnina og sest inn hjá þeim sem af góðmennsku sinni bjóða honum far. Hins vegar lætur hann ekkert upp um það hvert hann ætlar og þegir þunnu hljóði. Eftir nokkra stund er hann svo horfinn eins og hann hafi gufað upp. Önnur saga er sú að rétt við Vogastapa hreinlega birtist tveir menn í aftursætum bíla, sitji þar stutta stund í friði og spekt en hverfi svo jafnundarlega og þeir birtust. Þegar Árni Björnsson gaf út Íslenskt vættatal fyrir rúmum tíu árum gat hann þess að Stapadraugurinn hefði hrellt ferðamenn en látið minna á sér kræla eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð. Sennilega hverfur hann þá alveg þegar hún hefur loksins verið tvöfölduð. Við vonum að lesendum okkar sé ljóst að sögur af draugum geta verið til skemmtunar og fróðleiks um liðna tíð og um hugmyndaheim manna, þó að fæstir trúi nú á dögum á tilvist drauga í bókstaflegum skilningi.
Heimildir:
- Guðni Jónsson (ritstj.), Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur IX, Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík, 1951, bls. 25 (sjá einnig VII. bindi, bls. 65)
- Árni Björnsson, Íslenskt vættatal, Mál og menning, Reykjavík, 1990
- Jón Árnason (ritstj.), Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, Bókaútgáfan Þjóðsaga og Prentsmiðjan Hólar hf. Reykjavík, 1954, I. bindi bls. 378-9. Tilvitnanirnar eru teknar þaðan.
- Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson (útgefendur), Gráskinna hin meiri, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík, 1962, síðara bindi bls. 217-18
Mynd af draug: HB