Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gáttaflökt (e. atrial flutter) er hjartsláttartruflun sem orsakast af truflun á rafleiðni í leiðslukerfi hjartans. Það á uppruna sinn í hjartagáttum.
Hjartað skiptist í fjögur hólf; hægri og vinstri gátt og hægri og vinstri slegil. Gáttir dæla blóði niður í slegla, hægri slegill dælir blóði í lungnablóðrás og vinstri slegill dælir blóði út í líkamann. Í hverjum hjartslætti færist boðspenna um hjartahólfin sem veldur því að þau dragast saman og dæla blóði, fyrst gáttir og svo sleglar. Undir eðlilegum kringumstæðum er hjartsláttartíðni undir stjórn sínushnútar (e. sinoatrial node), eða gangráðs. Hann er staðsettur í hægri gátt hjartans og er gerður úr sérhæfðum hjartavöðvafrumum sem mynda boðspennu. Gangráðurinn stjórnar eðlilegum hjartslætti, eða sínustakti, sem sést á hjartalínuriti (EKG), sem P-bylgja, QRS-komplex og T-bylgja. Boðspenna frá gangráði færist hratt um gáttir hjartans og veldur því að þær dragast saman og dæla blóði niður í slegla. Á milli gátta og slegla hjartans er veggur úr þéttum vef sem stöðvar leiðni þar á milli. Boðspennan þarf því að fara í gegnum sérstakar frumur í skiptahnút (e. AV-node) til þess að komast niður í slegla og valda samdrætti þeirra. Við sleglasamdrátt berst blóð annars vegar til lungnablóðrásar og hins vegar til vefja líkamans.
Gáttaflökt er truflun sem rekja má til einnar eða fleiri rafhringrása í gáttum hjartans.
Gáttaflökt er hjartsláttartruflun sem stafar af hringrás boðspennu í hjartagáttum. Truflunin kemur til vegna ótímabærrar boðspennu í gáttum og mislangs torleiðnitíma í vefjum gátta. Fyrir hvern hring boðspennu um hjartagáttir verður samdráttur í þeim. Gáttaflökt svipar til gáttatifs (e. atrial fibrillation) en hefur reglulegan hraðan takt, ólíkt óreglu í hjartslætti í gáttatifi. Afskautun og samdráttur gátta í gáttaflökti er um 250-300 slög á mínútu, en vegna lengri torleiðnitíma í skiptahnút sem flytur boðspennu til slegla verður sleglasamdráttur, og þar með eiginlegur hjartsláttur, í kringum 150 slög á mínútu. Oft er talað um klassískt (tegund I) eða óklassískt (tegund II) gáttaflökt eftir því hvar boðspennumyndun á uppruna sinn. Í klassísku flökti byrjar hringrás boðspennu í kringum þríblöðkulokuna, sem er lokan milli hægri gáttar og hægri slegils.
Gáttaflökt verður einkum í einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma en getur þó einnig komið fyrir í fólki með annars eðlilegt hjarta. Sömu kvillar og geta valdið gáttatifi geta einnig leitt til gáttaflökts, örfá dæmi um slíka kvilla eru offita, skjaldkirtilsofstarfsemi (e. thyrotoxicosis) og sjúkur skiptahnútur (e. sick sinus syndrome), auk þess sem það getur komið til vegna lyfja. Gáttaflökt varir yfirleitt aðeins tímabundið en leiðir oft til gáffatifs.
Einkenni og áhrif gáttaflökts eru mismunandi eftir einstaklingum og heilsufari þeirra. Dæmigerð einkenni eru hjartsláttarónot, væg andnauð, þreyta og svimi. Sjaldgæfari einkenni eru mikil andnauð, hjartverkur, lágþrýstingur, kvíðatilfinning og jafnvel yfirlið. Greining á gáttaflökti felst helst í skoðun og hjartalínuriti. Helsta hættan við gáttaflökt, líkt og gáttatif, er aukin hætta á blóðsegamyndun og blóðsegareki, auk þess sem það getur valdið blóðþurrð í hjarta og hjartabilun. Meðferð við gáttaflökti felst í því að koma aftur á sínustakti í hjarta með rafvendingu eða lyfjum, viðhaldi sínustakts með hjartsláttaróreglulyfjum og að koma í veg fyrir blóðsegamyndun með gjöf blóðþynnandi lyfja.
Á vefnum Medmovie.com má sjá heyfimynd af hjarta sem slær eðlilega og til samanburðar hjarta þar sem er gáttaflökt.
Mynd: