Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Hér er spyrjandi að vitna til teikningar ítalska lista- og vísindamannsins Leonardó da Vinci (1452-1519) sem er að finna í skissubók hans. Hugmyndina að teikningunni er að finna í riti rómverska húsameistarans Vitrúvíusar (1. öld fyrir Krist) De architecture eða Um byggingarlistina. Í þriðju bók ritsins segir að einstakir hlutar hofbygginga eigi að standa í réttu hlutfalli við heildarstærð byggingarinnar, líkt og tilteknir líkamshlutar standi í réttu hlutfalli við mannslíkamann í heild sinni. Hlutfallið frá kinn til efsta hluta ennis er til að mynda einn tíundi hluti alls líkamans og hlutfallið frá brjósti til hársróta einn sjötti. Um mannslíkamann segir Vitrúvíus ennfremur:

Naflinn er vitanlega nákvæm miðja líkamans. Ef maður liggur á bakinu með hendur og fætur útréttar og miðja hrings er miðuð við naflann, nema fingur og tær við hringferilinn. Á sama hátt og hægt er að draga hring um mannslíkamann er ferningur myndaður. Því ef við mælum fjarlægðina frá hvirfli til ilja og berum hana saman við fjarlægðina milli útréttra handa, er breiddin sú sama og hæðin [...]
Bók Vitrúvíusar var eina ritið um byggingarlist frá fornöld sem hafði varðveist og það hafði mikil áhrif á byggingarlist endurreisnarinnar. Sá galli var þó á ritinu að öll handrit af því voru án teikninga. Teikning Leonardós er því nokkurs konar myndskreyting við texta Vitrúvíusar og það sem skrifað er fyrir ofan og neðan myndina er úr texta ritsins. Um byggingarlistina var einnig þekkt á miðöldum; ítölsku skáldin Petrarka og Boccaccio áttu handrit af ritinu sem fyrst var prentað í Róm árið 1486.

Teikning Leonardós við texta Vitrúvíusar

Leonardó da Vinci tilheyrði hópi háendurreisnarmanna. Hann fæddist árið 1452 í Vinci, litlu þorpi í Toskanahéraði á Ítalíu, og lést í Cloux í Frakklandi árið 1519. Hann var fjölhæfur listamaður sem beitti sér á flestum þeim sviðum sem kröfðust grafískrar framsetningar. Hann bæði málaði og teiknaði og gerði höggmyndir auk þess sem hann var arkitekt og verkfræðingur. Málverkin sem hann málaði af Mónu Lísu (1503-06) og af Síðustu kvöldmáltíðinni (1495-97) eru meðal frægustu listaverka endurreisnarinnar.

Leonardó hlaut betri skólagöngu en tíðkaðist um myndlistarmenn endurreisnarinnar. Meðal annars fékk hann að læra stærðfræði sem var afar fátítt. Flestir myndlistarmenn fengu lítið annað en nasasjón af lestri og skrift áður en þeir voru teknir í læri, stundum börn að aldri. Andrea del Sarto byrjaði sem lærlingur sjö ára, Titian níu ára og Michelangelo 13 ára. Botticelli þótti fara fullseint til meistara, en hann var enn í skóla 13 ára. Leonardó varð lærlingur 14-15 ára að aldri. Lærlingstímabilið gat numið allt að 13 árum en vanalega var það þó styttra.

Endurreisnin er talin eiga upphaf sitt á Ítalíu og oft er miðað við rúmlega 200 ára tímabil, frá miðri 14. öld til ofanverðrar 16. aldar. Höfuðeinkenni á endurreisninni mætti telja endurvakningu og endurreisn klassískra mennta fornaldarinnar. Aðdáun endurreisnarinnar á fornöldinni braust meðal annars út í höfnun á menningu miðalda. Petrarka taldi aldirnar frá falli Rómaveldis til sinna daga hafa verið "myrkar" og hafa margir tekið undir þá samlíkingu. Endurreisnin var einnig tími breyttrar heimsmyndar í kjölfar landafunda og prentlistin á upphaf sitt að rekja til þessa tímabils.

Hefðbundin aðgreining á list miðalda og endurreisnarinnar er á þann veg að á nýöld hafi málarar og listamenn sagt skilið við innri sýn miðalda sem miðaði að einingu við guðdóminn, og þess í stað farið að horfa út á við. Endurreisnarmenn litu á náttúruna og hinn ytri heim sem brunn þekkingar. Veraldleg ytri sýn tók við af trúarlegri innri leit. Sumir endurreisnarmálarar tóku upp á því að kryfja lík til að geta dregið upp nákvæmari mynd af mannslíkamanum. Antonio Pollaiuolo (um 1432-98) er talinn vera fyrsti myndlistarmaðurinn sem gerði slíkt.

Líkt og margir samtímamenn sínir hafði Leonardó da Vinci gífurlegan áhuga á mannslíkamanum.

Leonardó da Vinci og Michelangelo Buonarroti fengust báðir við krufningar. Í minnisbókum sínum segist Leonardó hafa krufið fleiri en tíu lík: "Þar sem hver skrokkur hélst ekki óskemmdur nema skamma stund, var nauðsynlegt að vinna verkið í nokkrum atrennum og hafa til þess mörg lík." Áður óþekktir textar læknisins Galenosar frá Pergamon (um 130-um 200) um líffærafræði höfðu mikil áhrif á þekkingu endurreisnarmanna á mannslíkamanum. Á mannamyndum frá þessum tíma sjást læknar oft með verk Galenosar við hendina.

Heimildir:

  • Peter Burke, The Historical Anthropology of Early Modern Italy: Essays on Perception and Communication, Cambridge University Press, Cambridge, 1987.
  • Peter Burke, The Italian Renaissance: Culture and Society in Italy (2. útg.), Polity Press, Cambridge, 1999.
  • J. R. Hale (ritstj.), The Thames and Hudson Dictionary of the Italian Renaissance, Thames and Hudson, London, 1997.
  • www.aiwaz.net/Leonardo/
  • www.leonardo2002.de

Mynd Leonardós við texta Vitrúvíusar: Vitruvian Man. Höfundur myndar: Luc Viatour. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 leyfi. [Sótt 3. júní 2021].

Teikning Leonardós af axlarlið: Museo Leonardo da Vinci. Höfundur myndar: Graham Triggs. Birt undir Creative Commons Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic leyfi. [Sótt 3. júní 2021].

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

5.3.2002

Síðast uppfært

3.6.2021

Spyrjandi

Guðlaugur Kristmundsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2154.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 5. mars). Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2154

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2154>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta?
Hér er spyrjandi að vitna til teikningar ítalska lista- og vísindamannsins Leonardó da Vinci (1452-1519) sem er að finna í skissubók hans. Hugmyndina að teikningunni er að finna í riti rómverska húsameistarans Vitrúvíusar (1. öld fyrir Krist) De architecture eða Um byggingarlistina. Í þriðju bók ritsins segir að einstakir hlutar hofbygginga eigi að standa í réttu hlutfalli við heildarstærð byggingarinnar, líkt og tilteknir líkamshlutar standi í réttu hlutfalli við mannslíkamann í heild sinni. Hlutfallið frá kinn til efsta hluta ennis er til að mynda einn tíundi hluti alls líkamans og hlutfallið frá brjósti til hársróta einn sjötti. Um mannslíkamann segir Vitrúvíus ennfremur:

Naflinn er vitanlega nákvæm miðja líkamans. Ef maður liggur á bakinu með hendur og fætur útréttar og miðja hrings er miðuð við naflann, nema fingur og tær við hringferilinn. Á sama hátt og hægt er að draga hring um mannslíkamann er ferningur myndaður. Því ef við mælum fjarlægðina frá hvirfli til ilja og berum hana saman við fjarlægðina milli útréttra handa, er breiddin sú sama og hæðin [...]
Bók Vitrúvíusar var eina ritið um byggingarlist frá fornöld sem hafði varðveist og það hafði mikil áhrif á byggingarlist endurreisnarinnar. Sá galli var þó á ritinu að öll handrit af því voru án teikninga. Teikning Leonardós er því nokkurs konar myndskreyting við texta Vitrúvíusar og það sem skrifað er fyrir ofan og neðan myndina er úr texta ritsins. Um byggingarlistina var einnig þekkt á miðöldum; ítölsku skáldin Petrarka og Boccaccio áttu handrit af ritinu sem fyrst var prentað í Róm árið 1486.

Teikning Leonardós við texta Vitrúvíusar

Leonardó da Vinci tilheyrði hópi háendurreisnarmanna. Hann fæddist árið 1452 í Vinci, litlu þorpi í Toskanahéraði á Ítalíu, og lést í Cloux í Frakklandi árið 1519. Hann var fjölhæfur listamaður sem beitti sér á flestum þeim sviðum sem kröfðust grafískrar framsetningar. Hann bæði málaði og teiknaði og gerði höggmyndir auk þess sem hann var arkitekt og verkfræðingur. Málverkin sem hann málaði af Mónu Lísu (1503-06) og af Síðustu kvöldmáltíðinni (1495-97) eru meðal frægustu listaverka endurreisnarinnar.

Leonardó hlaut betri skólagöngu en tíðkaðist um myndlistarmenn endurreisnarinnar. Meðal annars fékk hann að læra stærðfræði sem var afar fátítt. Flestir myndlistarmenn fengu lítið annað en nasasjón af lestri og skrift áður en þeir voru teknir í læri, stundum börn að aldri. Andrea del Sarto byrjaði sem lærlingur sjö ára, Titian níu ára og Michelangelo 13 ára. Botticelli þótti fara fullseint til meistara, en hann var enn í skóla 13 ára. Leonardó varð lærlingur 14-15 ára að aldri. Lærlingstímabilið gat numið allt að 13 árum en vanalega var það þó styttra.

Endurreisnin er talin eiga upphaf sitt á Ítalíu og oft er miðað við rúmlega 200 ára tímabil, frá miðri 14. öld til ofanverðrar 16. aldar. Höfuðeinkenni á endurreisninni mætti telja endurvakningu og endurreisn klassískra mennta fornaldarinnar. Aðdáun endurreisnarinnar á fornöldinni braust meðal annars út í höfnun á menningu miðalda. Petrarka taldi aldirnar frá falli Rómaveldis til sinna daga hafa verið "myrkar" og hafa margir tekið undir þá samlíkingu. Endurreisnin var einnig tími breyttrar heimsmyndar í kjölfar landafunda og prentlistin á upphaf sitt að rekja til þessa tímabils.

Hefðbundin aðgreining á list miðalda og endurreisnarinnar er á þann veg að á nýöld hafi málarar og listamenn sagt skilið við innri sýn miðalda sem miðaði að einingu við guðdóminn, og þess í stað farið að horfa út á við. Endurreisnarmenn litu á náttúruna og hinn ytri heim sem brunn þekkingar. Veraldleg ytri sýn tók við af trúarlegri innri leit. Sumir endurreisnarmálarar tóku upp á því að kryfja lík til að geta dregið upp nákvæmari mynd af mannslíkamanum. Antonio Pollaiuolo (um 1432-98) er talinn vera fyrsti myndlistarmaðurinn sem gerði slíkt.

Líkt og margir samtímamenn sínir hafði Leonardó da Vinci gífurlegan áhuga á mannslíkamanum.

Leonardó da Vinci og Michelangelo Buonarroti fengust báðir við krufningar. Í minnisbókum sínum segist Leonardó hafa krufið fleiri en tíu lík: "Þar sem hver skrokkur hélst ekki óskemmdur nema skamma stund, var nauðsynlegt að vinna verkið í nokkrum atrennum og hafa til þess mörg lík." Áður óþekktir textar læknisins Galenosar frá Pergamon (um 130-um 200) um líffærafræði höfðu mikil áhrif á þekkingu endurreisnarmanna á mannslíkamanum. Á mannamyndum frá þessum tíma sjást læknar oft með verk Galenosar við hendina.

Heimildir:

  • Peter Burke, The Historical Anthropology of Early Modern Italy: Essays on Perception and Communication, Cambridge University Press, Cambridge, 1987.
  • Peter Burke, The Italian Renaissance: Culture and Society in Italy (2. útg.), Polity Press, Cambridge, 1999.
  • J. R. Hale (ritstj.), The Thames and Hudson Dictionary of the Italian Renaissance, Thames and Hudson, London, 1997.
  • www.aiwaz.net/Leonardo/
  • www.leonardo2002.de

Mynd Leonardós við texta Vitrúvíusar: Vitruvian Man. Höfundur myndar: Luc Viatour. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 leyfi. [Sótt 3. júní 2021].

Teikning Leonardós af axlarlið: Museo Leonardo da Vinci. Höfundur myndar: Graham Triggs. Birt undir Creative Commons Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic leyfi. [Sótt 3. júní 2021].

...