Eins og annars staðar er búsetumynstur mjög mótað af náttúrufari, svo sem gróðurfari, landslagi og veðurfari en endurspeglar líka söguna að töluverðu leyti. Gríðarlega stór svæði í norðanverðri álfunni eru mjög strjálbýl og helgast það meðal annars af því að þar er stærsta regnskógasvæði heims, Amasonsvæðið. Syðsti hluti Suður-Ameríku, svæði sem nefnist Patagónía, er einnig mjög strjálbýl en það er tiltölulega gróðursnautt svæði og veðurfar allt annað en í hitabeltinu norðar. Mesta þéttbýlið er hins vegar meðfram ströndinni og þá sérstaklega í austur- og suðausturhlutanum, en þar settust Evrópumenn að í miklum mæli, og einnig meðfram norðvesturströndinni sem að hluta til nær inn á svæði þar sem ríki Inkanna var öflugt á sínum tíma. Þegar Inkamenningin stóð í sem mestum blóma er talið að hásléttur Andesfjalla hafi verið þéttbýlustu svæði Suður-Ameríku. Af einstökum löndum er Ekvador þéttbýlasta land Suður-Ameríku með um 47 íbúa á hvern km2. Á eftir Ekvador koma Kólumbía með tæplega 38 íbúa/km2 og svo Venesúela með um 28 íbúa/km2. Öll eru þessi ríki í hitabeltinu í norðurhluta álfunnar. Í Suður-Ameríku er að finna fimmta fjölmennasta ríki heims, en það er Brasilía. Landið er þó ekkert sérlega þéttbýlt það sem það er gríðarlega stórt, en um 22 íbúar eru á hvern km2. Öfgarnar í búsetumynstrinu eru hins vegar miklar, þarna er að finna stærstu borg á suðurhveli jarðar, São Paulo og einnig aðrar mjög fjölmennar borgir eins Rio de Janeiro. Á móti kemur að Amasonsvæðið tekur yfir stóran hluta landsins og þar er mjög strjálbýlt eins og glögglega má sjá á kortinu hér fyrir ofan. Til gaman má geta þess að næst strjálbýlasta land í heimi tilheyrir Suður-Ameríku, en það eru Falklandseyjar eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvert er strjálbýlasta land í heimi? Þar eru einungis 0,24 íbúar/km2 og aðeins Grænland er strjálbýlla. Í lokin er rétt að hafa í huga að samspil þátta eins og náttúrufars og sögu í mótun búsetu er vissulega mun flóknara en hér hefur verið drepið á. Aðrir þættir hafa einnig verið áhrifamiklir í gegnum tíðina, bæði í Suður-Ameríku og annars staðar. Má þar nefna samgöngur. Á síðari tímum hafa atriði eins og fjarskipti og ýmsar tækninýjungar einnig farið að skipta máli þó þau komi varla til með að kollvarpa því búsetumynstri sem þróast hefur í gegnum aldir og árþúsundir. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað búa margir í Suður-Ameríku?
- Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku?
- Hver eru fimm þéttbýlustu lönd í heimi? eftir Ulriku Andersson
- South America (2008) á Encyclopædia Britannica. Skoðað 9. 6. 2008 á Encyclopædia Britannica Online
- Continent á Wikipedia. Skoðað 9. 6. 2008
- South America á Wikipedia. Skoðað 9. 6. 2008
- The population of continents, regions and countries á GeoHive. Skoðað 16. 7. 2008.