Tilfærsla og aðskilnaður korna í vegyfirborðinu er líklega sú ástæða sem oftast veldur þvottabrettismyndun á malarslitlögum hérlendis og skal því reynt að skýra hana nánar hér. Þegar bíll ekur eftir þurrum malarvegi, kasta hjól hans hluta af óbundna efninu í yfirborðinu upp, þau fylgja í kjölsog bílsins og hluti af kornunum festast á hjólunum sjálfum. Við þetta verður aðskilnaður í efninu, þannig að fínustu kornin mynda ryk á eftir bílnum og fjúka gjarnan burt. Meðalstóru kornin eru of stór til að rjúka burt og of lítil til að rúlla eftir yfirborðinu. Þau safnast því saman og þjappast í hryggi og mynda þannig þvottabretti. Grófustu kornin eru nógu stór til að rúlla eftir yfirborðinu og safnast því ekki í hryggina. Þetta gerist einna helst eins og áður segir í þurru veðri og þegar efsta lagið í veginum er laust, en neðri lög eru þjöppuð og hörð. Til að koma í veg fyrir myndun þvottabretta þarf að hindra að ástand eins og lýst er hér að ofan skapist. Þá skiptir einna mestu máli að efnið sem notað er í malarslitlag sé með sem jafnasta kornadreifingu, það er að segja að ekki sé í því of mikið af einhverjum ákveðnum kornastærðum, til dæmis sandi. Vönduð heflun er líka nauðsynleg og rykbinding með salti minnkar líkur á þvottabrettismyndun. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hverjir eru 5 hæstu fjallvegir á Íslandi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Er til þumalputtaregla sem segir til um hraða bifreiðar miðað við lengd bremsufara? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- blog.is. Sótt 3.6.2010.