Hver eru upprunalegu tré Íslands?Þegar spurt er um tré er fyrst að skilgreina hvað sé tré, samanborið við til dæmis hvað flokkast sem runni, en munurinn milli trjáa og runna er síður en svo skýr. Tré og runnar eru plöntur með fjölæra, trénaða stöngla, en frá stærstu trjám (til dæmis risafurum) til jarðlægustu smárunna (til dæmis grasvíðis) er hvergi hægt að draga línu þar sem með óyggjandi hætti er að segja að öðu megin við hana séu tré en runnar hinu megin. Þá er það oft svo að sama tegundin getur verið runni undir erfiðum kringumstæðum en tré við betri skilyrði. Sumir gera þann greinarmun á trjám og runnum að tré séu, eða geti verið, með einn miðlægan stofn en runnar séu með fleiri stofna og enginn þeirra miðlægur eða ríkjandi. Þá er það formið en ekki stærðin sem ræður. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) skilgreinir skóga þannig að þeir saman standi af trjám sem ná minnst 5 metra hæð fullvaxin. Þá er eðlilegt að miða við að planta með trénaða stöngla sem nær 5 m hæð flokkist sem tré óháð vaxtarformi. Í skýrslum Íslands til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna skilgreinum við skóga þannig að þeir nái minnst tveggja metra hæð fullvaxnir. Samkvæmt því flokkast planta með trénaða stöngla sem nær tveggja metra hæð fullvaxin sem tré. Sé miðað við form voru þrjár trjátegundir á Íslandi við landnám: Birki, reyniviður og blæösp. Þær eru reyndar allar þannig að víða vaxa þær sem margstofna runnar en geta þó við betri skilyrði orðið að einstofna, tiltölulega beinvöxnum og stæðilegum trjám. Hæstu tré þessara tegunda á Íslandi nú eru 14-15 metra há og ætla má að hámarkshæðin hafi verið svipuð við landnám. Sé miðað við 5 metra skilgreininguna bætist gulvíðir við fyrrnefndu tegundirnar. Hann er sjaldnast einstofna en hæsti gulvíðirinn sem vitað er um er 8-9 metra hár Sé miðað við tveggja metra hæð bætast tvær tegundir við í viðbót: loðvíðir og einir. Þessar tegundir eru næstum alltaf lágvaxnar og jafnvel jarðlægar en eiga það til að hækka í loftinu. Þekktir eru 3-4 metra háir loðvíðirunnar (tré) en ekki er vitað til þess að hann nái 5 metrum hér á landi. Hæsti einirinn sem vitað er um hérlendis er rétt rúmlega tveggja metra hár. Sem sagt, eftir því hvaða skilgreiningu er notast við, þá voru 3-6 trjátegundir á Íslandi við landnám. Aðrar runnategundir sem hér voru við landnám svo sem fjalldrapi, þyrnirós, glitrós (sem reyndar barst hugsanlega til landsins eftir landnám) og fjallavíðir ná ekki tveggja metra hæð og þaðan af síður smárunnar á borð við lyngtegundir, grasvíði og blóðberg. Myndir:
- Mynd af birki: Fyrstu skref til eflingar skógræktar og landgræðslu | Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (Sótt 28. 9. 2015)
- Mynd af eini: Juniperus communis 001.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 28. 9. 2015).