En ég hef sannfært sjálfan mig um að ekkert sé til í heiminum: enginn himinn, engin jörð, engir hugir, engir líkamar. Því skyldi ég þá vera til? -- En ef ég sannfærði sjálfan mig hlýt ég að hafa verið til. -- En það er illur andi, máttugur og kænn, sem ævinlega blekkir mig af ásettu ráði. -- Ef hann blekkir mig er enginn vafi að ég er til. Blekki hann mig eins og hann vill: hann getur aldrei gert mig að engu, svo framarlega sem ég held ég sé eitthvað. Nú eru öll rök nægilega vegin og metin. Ég hlýt að draga þá ályktun að staðhæfingin Ég er, ég er til hljóti að vera sönn, hvenær sem ég segi hana eða hugsa (Önnur hugleiðing, bls. 142).Á svipuðum nótum má benda á að staðhæfingin „Ég er ekki til” getur aldrei verið sönn. Merking staðhæfingarinnar felur í sér að orðið ég hlýtur að vísa til þess sem mælir. Ef mælandinn er ekki til á þeim tíma sem staðhæfingin er sett fram á orðið ég sér enga tilvísun og staðhæfingin verður merkingarlaus. Ef til vill er það hugsanlegt að einhver geti einhvern tíma orðið sannfærður um að hann sé ekki til en slík sannfæring hlýtur þá að fela í sér rökvillu. Undirrituð treystir sér engan veginn til að gefa ráð um það hvernig fólk geti tileinkað sér svo fjarstæðukennda sannfæringu. Hitt er svo allt annað mál hvort mögulegt sé fyrir spyrjanda eða einhvern annan að sannfæra aðra um að hann sé ekki til. Það má væntanlega gera með því að fela sig nógu lengi og efi um eigin tilvist þarf þar ekki að koma við sögu. Heimild: René Descartes (1641), Hugleiðingar um frumspeki, þýð. Þorsteinn Gylfason. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001. Sjá einnig eftirfarandi svör:
- Er hægt að vita hvort mann er að dreyma?
- Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvert annars?
- Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?
- Er hægt að sanna það vísindalega að maðurinn hafi vitund og að hann hugsi?
- Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?
- Hafa minningar raunverulega eitthvað með fortíðina að gera?
- Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?
Mynd: Móna Lísa eftir Leonardó da Vinci