Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Já.
Hefði verið spurt hvort fótspor sé örugglega eftir fót hefði svarið líka verið já. Spor sem ekki er eftir fót er ekki fótspor þótt það líti ef til vill alveg eins út og ef mig minnir eitthvað sem aldrei var, þá er það ekki minning heldur misminni. Allt sem er í kollinum á mér getur verið eins hvort sem um raunverulega minningu eða misminni er að ræða. Munurinn á þessu tvennu liggur í því einu að minningar hafa eitthvað með fortíðina að gera.
Í framhaldi af þessu má svo spyrja hvort það sé einhver leið að vita með vissu hvort það sem við teljum vera minningar sé það í raun og veru. Það sem okkur minnir ber ekki með sér neina tryggingu fyrir því að það sé raunverulegar minningar fremur en misminni. Svipað má reyndar segja um alla þekkingu. Það að okkur finnist við vera viss um að eitthvað sé satt tryggir ekki að svo sé.
Stundum berum við minningar okkar saman við aðrar heimildir til að sannprófa áreiðanleika þeirra. Ef mig minnir eitthvað en er ekki alveg viss spyr ég aðra sjónarvotta, gái að ummerkjum eða fletti upp í bók. Beri heimildum saman við það sem mig minnir slæ ég því föstu að um raunverulega minningu sé að ræða, annars geri ég ráð fyrir þeim möguleika að mig misminni. Á svipaðan hátt prófa menn, að minnsta kosti þeir sem temja sér gagnrýna hugsun, áreiðanleika alls konar skoðana og hugmynda sem þeir hafa.
Minningar manna og þekking mynda heild þar sem eitt styður annað og það sem notað er fyrir prófstein í dag gengur sjálft undir próf á morgun. Þetta þýðir ekki að minningar sem standast svona hversdagsleg próf séu hafnar yfir allan vafa. Enginn prófsteinn á minningar okkar getur útilokað að guð almáttugur hafi skapað heiminn fyrir einni mínútu með steingervingum, sporum eins og eftir fætur frá í gær og með fjölda fólks sem minnir hitt og þetta og á þess engan kost að komast að því að það var allt skáldað í hausinn á því fyrir augnabliki síðan. Svona efahyggjurök minna okkur á að öll mannleg þekking er vafa undirorpin en það er engin leið að álykta af þeim að það sé neitt minna mark takandi á minningum fólks en annars konar vitneskju, gögnum eða heimildum.
Mynd: World of Escher
Atli Harðarson. „Hafa minningar raunverulega eitthvað með fortíðina að gera?“ Vísindavefurinn, 11. september 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=891.
Atli Harðarson. (2000, 11. september). Hafa minningar raunverulega eitthvað með fortíðina að gera? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=891
Atli Harðarson. „Hafa minningar raunverulega eitthvað með fortíðina að gera?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=891>.