Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þekking okkar á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur - sem við höfum dæmi um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks. Trúin virðist einlæg en ber þó keim af því að ritarinn sé að sannfæra lesanda sinn og geti ekki með sanni sagt að slík undur séu jafn tíð á hans dögum og áður fyrr.
En það virðist alltaf vera einkenni þjóðtrúar að hún var meiri áður fyrr, sama hvenær borið er niður. Þetta hefur Árni Björnsson bent á og sett fram þá hugmynd að raunveruleg trú á fyrirbæri þjóðsagna hafi aldrei verið almenn, heldur bundin við fámennan hóp á meðan flestir hafi litið á svokallaðar þjóðtrúarsögur sem skemmtiefni (sbr. Skírnir 1996).
Fleiri munu þó á þeirri skoðun að fyrir hugarfarsbyltingu upplýsingaaldarinnar hafi trú á svokölluð dulræn fyrirbæri verið mun almennari en síðar hefur orðið. Er þá vert að hafa í huga að enn er fólk að verða fyrir reynslu sem það tengir við álfa og huldufólk og segir jafnframt trúverðugar sögur af slíkum upplifunum. Hvernig var það þá áður en vísindin lögðu grunn að opinberri heimsmynd nútímans?
Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum uppi við jökla, í Ódáðahrauni og á Arnarvatnsheiði þar sem ferðalangar rekast hvað eftir annað á þá við silungsveiðar og ganga af þeim dauðum. Þess eru líka dæmi að byggðamenn komist í kunningsskap við útilegumenn og hagnist á þeim viðskiptum: fái afburða gott verð fyrir sjávarfang, þiggi gjafir og hljóti góð verklaun fyrir kaupamennsku.
Er því stutt leið úr heimi þessara sagna yfir í draumaveröld álfa og huldufólks. Stúlkum er rænt af grasafjalli eða þegar þær eru rétt ógefnar, og fluttar til fjalla að þjónusta útilegumenn eða giftast þeim. Þá eru þær gjarnan vansælar þar til einn útilegumannanna, sem hefur líka verið rænt úr byggð, leggur á ráðin með þeim að sleppa, eða þeim berst hjálp frá byggðarmönnum. Stundum hvíla álög á útilegumönnunum sem er þá ekki sjálfrátt. Furðulegt er hvað sveitamönnum verður lítið um að vega útilegumenn. Þeir höggva þá og reka í gegn án þess að iðrast, oft svo formálalaust að lesandinn getur vel ímyndað sér að báðir séu jafnhræddir ferðalangar í óbyggðum. Morðæðið gengur svo langt í sögu gamallar konu í Reykjavík að bóndadóttir á Vestfjörðum jafnar met Axlar-Bjarnar og heggur höfuðið af átján útilegumönnum sem skríða inn til hennar á jólanótt - en missir af þeim nítjánda sem reynir síðan að hefna sín grimmilega.
Þegar byggðamenn hafa drepið útilegumennina láta þeir greipar sópa um híbýli þeirra, slá eign sinni á þýfið sem þar hefur safnast, og verða sjálfir auðmenn upp frá því. Ekki er annað að sjá en þessi manndráp verði mönnum til gæfu nema í sögu séra Skúla Gíslasonar um stúlkuna frá Galtalæk. Hún er numin á brott og höfð til að þjónusta fjórtán útilegumenn í tólf ár. Þá loks sér hún undankomuleið þegar þeir sofa þreyttir eftir að hafa flutt heim sláturfé. Hún fyllir bæinn af viði og slær eldi í svo þeir brenna þar allir inni. Tveir komast logandi út en deyja á hlaðinu og horfir sá eldri þeirra grátandi á eftir stúlkunni þar sem hún ríður til byggða: "En illa mæltist fyrir verk hennar. Var hún hvergi vel látin, og var gæfulítil til dánardægurs."
En svo ævintýralegar sem þessar útilegumannasögur eru og fullar af vongóðri trú um betra líf á fjöllunum þá bregður mjög til hins verra þegar sagt er frá þekktustu útilegumönnum seinni alda, og síðar aðalpersónum í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar: Fjalla-Eyvindi og Höllu. Jón Árnason hefur tekið saman söguþátt af þeim eftir margvíslegum heimildum frá Skúla presti, Benedikt á Brjánslæk, Jóni á Gautlöndum, handritum frá Páli sýslumanni Melsteð og úr fleiri áttum. Í þættinum blandast munnmælin og útilegumannatrúin saman við sagnfræðiritgerð um hin raunverulegu útileguhjón þegar vitnað er til táknrænna lýsinga á þeim frá alþingi 1765: Halla er dökk yfirlitum, "svipill og ógeðsleg" en Eyvindur "glóbjartur á hár" og mikill ljúflingur.
Eftir þáttinn um Fjalla-Eyvind og Höllu rekur hver sagan aðra um bændasyni og vinnumenn sem fara inná fjöll og finna þar góðbýli með karli, kerlingu, fagurri dóttur og stundum fleiri börnum. Hjónin eru þá ýmist systkini eða hjón sem hafa ekki fengið að unnast í byggð og hafa því flúið til fjalla þar sem þau búa í friði fyrir réttvísinni. Nú eiga þau von á dauða sínum og vilja því gefa dóttur sína byggðarmanninum sem þau hafa villt til sín. Stundum er þó meiri ófriður í þessum sögum og minna um systkinaástir; karlinn hinn versti og synir hans eftir því, þannig að dóttirin fæst ekki fyrr en búið er að drepa þá. Ungu hjónin enda svo í farsælu hjónabandi í heimahögum piltsins eða í grösugum huldubyggðum útilegufólksins.
Miklum bálki útilegumannasagna lýkur svo á þeirri þekktustu þeirra, um Hellismenn sem er tekin "eptir almennri sögn í Borgarfirði, með leiðréttingum Þórðar bónda Árnasonar á Bjarnastöðum í Hvítársíðu." Sagan er ólík öðrum útilegumannasögum því að hún er raunsæisleg í öllum meginatriðum. Hellismenn lögðust út eftir að hafa drepið kerlingu á Hólum og settust að í Surtshelli. Eins og kunnugt er fann Eggert Ólafsson mannvistarleifar í hellinum, hleðslur, eldstæði og beinahrúgur, og má vera að það hafi átt sinn þátt í að gera söguna um Hellismenn raunsæislegri en aðrar útilegumannasögur. Þar voru að minnsta kosti óyggjandi leifar um mannabyggð á fjöllum, sem þurfti hvorki læk, þoku né hríð til að komast í.
Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd fyrir safari-ferðir með útlendinga, jeppafólk, gönguskóvædda óbyggðadýrkendur og vélsleðakappa.
Útilegumannasögur mynda eina sagnaflokkinn sem á sér ekki beina hliðstæðu í munnlegum fræðum nágrannaþjóða okkar. Í þeim hafa Íslendingar notað frásagnarmynstur ævintýra og sótt sér hugmyndir úr veröld trölla, álfa og huldufólks til að sviðsetja sögur í óræðum mannabyggðum á hálendi Íslands. Þeir hafa tekið frásagnir sem gerast yfirleitt ekki í heimi sem er líkur okkar og fært þær inn í veruleika sem þeir trúðu að hlyti að leynast í óbyggðunum.
Útilegumannatrúin var sterk og leiddi menn til raunverulegra leitarferða eins og þegar forvígismaður upplýsingarinnar á Íslandi, Magnús Stephensen, sendi menn að leita útilegumanna eins og getið er um á bls. 356 í Ferðabók Ebenezers Hendersons sem hefur verið þýdd á íslensku og kom út í Reykjavík árið 1957. Þá leituðu Mývetningar að útilegumönnum eins og lesa má um hjá Þorvaldi Thoroddsen í Landfræðissögu Íslands 4 (1904), bls. 51-52. Enda þótt við teljum okkur sjá að flestallar sögurnar nema þátturinn af Fjalla-Eyvindi og Höllu séu eingögnu úr smiðju fantasíunnar er athyglisvert að þeim skuli öllum vera haldið saman í sérstökum flokki. Það sýnir hvað útilegumannasögur hafa skotið djúpum rótum á Íslandi; svo djúpum að við getum tæpast hugsað okkur samfélag fyrri alda án þess að gera ráð fyrir að þær hafi gegnt lifandi hlutverki í hugarheimi fólks.
Sjá einnig svar höfundar við spurningunni Hvað er þjóðtrú og hvernig er þjóðtrú íslendinga ólík þjóðtrú annarra norðurlandaþjóða?Heimildir um útilegumenn
Lúðvík Ver Smárason: Grettir og útilegumannatrúin (1985, ópr. B.Ed.-ritgerð frá KHÍ).
Um íslenska útilegumenn og sögur af þeim, sjá: Halldór Kiljan Laxness. "Lítil samantekt um útilegumenn." Tímarit Máls og menningar (1949), 86-130 (epr. í Reisubókarkorni (1950), 212-268);
Ólafur Briem. Útilegumenn og auðar tóftir (1983, 2. útg.);
Jan Spoelstra: De vogelvrijen in de ijslandse letterkunde (1938);
H. Reykers: Die isländische Ächtersage (1936).
Sjá líka ópr. fjölrit Þórunnar Valdimarsdóttur: Útilegumannasögur í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar (1991), og ópr. B.A. ritgerð Þórdísar Magnúsdóttur frá H.Í. Frásagnargerð útilegumannasagna (1976).
Sögur af Fjalla-Eyvindi eru sagðar af Lofti Guðmundssyni í: Fjalla-Eyvindur og Halla (1958).
Í Landfræðissögu Þorvaldar Thoroddsen er víða getið um útilegumannatrú í sambandi við könnun hálendisins.
Sjá einnig ritdeilu Björns Gunnlaugssonar (Íslendingur 2 (1861), 11-13) og séra Hákonar Espólíns (Norðanfari (1862), 84-85) um tilvist útilegumanna, og grein Sigurðar Gunnarssonar um útileguþjófa í Norðanfara 4 (1865), 3, 9-10, 12.
Byggt á kafla höfundar um Íslenskar þjóðsögur í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu sem Mál og menning gaf út árið 1996.
Gísli Sigurðsson. „Dvöldu útilegumennirnir einir á fjöllum eða héldu þér til í hópum? Var fólk almennt hrætt við þá?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2002, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2065.
Gísli Sigurðsson. (2002, 23. janúar). Dvöldu útilegumennirnir einir á fjöllum eða héldu þér til í hópum? Var fólk almennt hrætt við þá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2065
Gísli Sigurðsson. „Dvöldu útilegumennirnir einir á fjöllum eða héldu þér til í hópum? Var fólk almennt hrætt við þá?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2002. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2065>.