Fyrsti gervihnöttur Rússa fór út í geiminn þann 4. október 1957. Sá kallaðist Iskustvennyi Sputnok Zemli eða gerviförunautur jarðarinnar en var oftast bara kallaður Spútnik I. Hann var 83 kílóa þungt kúlulaga álhylki á stærð við körfubolta með loftnet áfast við sig. Spútnik I sendi stöðugt merki til jarðar eftir að hann komst á braut um jörð en lengst fór gervihnötturinn í 942 kílómetra fjarlægð frá jörðu. Hann var úti í geimnum í samtals 92 daga en þá hafði orka hans minnkað vegna loftmótstöðu og aðdráttarafl jarðarinnar dregið hann svo langt inn í lofthjúp jarðar að hann brann upp til agna.
Rúmlega mánuði síðar sendu Rússar Spútnik II út í geiminn og í þetta skiptið var Laika með í för, fyrsti geimhundur sögunnar. Laika var fyrsti lifandi jarðarbúinn sem fór út í geiminn. En tækninni á þessum tíma var ábótavant. Þó að Rússar kynnu að senda gervihnetti út í geiminn kunnu þeir ekki að koma þeim heilum tilbaka til jarðarinnar. Svo fór að geimhundurinn Laika dó í Spútnik II eftir um vikudvöl. Í kjölfarið voru átta aðrir spútnikar sendir út í geiminn. Gervihnettirnir söfnuðu alls kyns gögnum og upplýsingum eins og til dæmis um hitastig, þrýsting, geislun og segulsvið. Síðan þá hafa um 5000 gervihnettir verið sendir á braut um jörð. Minnst 15 þjóðir hafa einhvern tímann sent gervihnetti út í geiminn en nú er talið að um 2500 gervihnettir séu í geimnum, þar af 700 frá Bandaríkjunum og 1300 frá Rússlandi.
Hér má heyra merkin sem Spútnik I sendi til jarðar
Heimildir Britannica Online
Scientific American
NASA
Mynd af Laiku