
Storkukerfið stuðlar að því að blóðið storknar sem er þáttur í blæðingarstöðvun (e. hemostasis) og lífsnauðsynlegur þáttur í samvægi líkamans (e. homeostasis).

Í mjög grófum dráttum má lýsa þessari keðjuverkun á eftirfarandi hátt. Innra ferlið fer í gang þegar blóð kemst í snertingu við neikvætt hlaðið yfirborð sem kemur í ljós við áverka. Ytra ferlið er örvað þegar æðaveggur rofnar og vefjaþáttur (TF eða þáttur III) losnar úr honum. Þetta er sykurprótín á yfirborðinu undir innþekju veggjarins og binst fosfólípíðum úr himnu blóðflagna. Á skýringarmyndinni hér að ofan sést hvar ferlin tvö mætast. Síðan sameinast þau þar sem þáttur X virkjast og verður þáttur Xa sem gegnir því hlutverki að breyta próþrombíni í þrombín. Próþrombín er óvirkt ensím en þrombín virkt og örvar þætti XI, VIII og V sem halda áfram í keðjuverkuninni. Endanleg áhrif þrombíns eru að breyta uppleystu fíbrínógeni í óuppleysanlega fíbrínþræði og virkja þátt XIII í XIIIa. Þáttur XIIIa (sem er einnig nefndur transglútamínasi) tengir saman fíbrínfjölliður sem gera tappann fastari og þéttari í sér. Eins og sést á skýringarmyndinni koma kalkjónir við sögu í sumum skrefum storkuferlisins. Þær virka sem hjálparhvatar sem þýðir að ensímin verða ekki virk nema að þau tengist þeim fyrst. Til þess að ávallt sé nóg af kalkjónum í blóðvökva til að sinna þessu hlutverki og öðrum fylgjast kalkkirtlar með magni þeirra. Ef styrkur kalks minnkar mynda þessir kirtlar og seyta kalkkirtlahormóni sem örvar losun kalks úr beinum. Við það eykst magn kalkjóna í blóði. Á sama hátt er K-vítamín nauðsynlegt til að storknun eigi sér stað á eðlilegan hátt. K-vítamínþörfin er oftast uppfyllt af ristilgerlum sem „borga fæðu og húsnæði“ með því að mynda K-vítamín fyrir okkur. Gerlar taka sér þó ekki bólfestu í ristli nýfæddra barna fyrr en eftir nokkra daga. Þess vegna er þeim gefin K-vítamínsprauta strax eftir fæðingu svo að ekki sé hætta á blæðingum. Þar sem storkuferlið er flókið getur margt farið úrskeiðis sem truflar það, enda þekkjast margir kvillar sem hafa áhrif á kerfið. Það þarf ekki nema gallað efni í einu skrefi til að blóðstorknun verði ekki eðlileg. Dreyrasýki A er líklega þekktasta dæmið. Einstaklingur með þennan sjúkdóm myndar ekki þátt VIII vegna gallaðs gens á X-kynlitningi. Dreyrasýki B stafar af öðru gölluðu geni á X-litningnum sem leiðir til skorts á þætti IX. Einnig eru til sjúkdómar þar sem blóðflögurnar eru gallaðar, til dæmis Von Willebrands-veiki, þar sem Von Willebrands-þátt vantar. Heimildir og myndir:
- Introduction to Blood Coagulation á The Medical Biochemistry Page. (Skoðað 14.8.2012).
- Coagulation - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 14.8.2012).
- Fyrri mynd: Band-Aid Hand | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Gene Han. Birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 16.8.2012).
- Seinni mynd: Classical blood coagulation pathway - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 14.8.2012).