Eðlilegt virðist að gera ráð fyrir að hástökkvari geti náð sama upphafshraða í stökkinu óháð hæð sinni yfir sjávarmáli. Svipað gildir um kúluvarp og kringlukast þar sem tilhlaup í þessum íþróttum er ekki langt: Kastarinn ætti að geta gefið kasthlutnum sama upphafshraða hvort sem hann er uppi á fjöllum eða við sjávarmál. Hins vegar er viðbúið að þetta eigi ekki við í langstökki, þrístökki, stangarstökki eða spjótkasti þar sem tilhlaupið í þessum íþróttum er alllangt og því ekki víst að íþróttamaðurinn geti náð sama hraða vegna loftþynningarinnar sem er annar fylgifiskur hæðarinnar. Þegar kasthlut er beint upp á við með tilteknum hraða í lóðrétta stefnu minnkar hæð kastsins í öfugu hlutfalli við þyngdarkraftinn á staðnum. Þegar saman kemur þýðir þetta að kasthæðin, miðað við óbreyttan lóðréttan upphafshraða, eykst um 1/1000 þegar fjarlægð staðarins frá jarðarmiðju eykst um 3,7 km, að öllu öðru óbreyttu. Eftir að fótur hástökkvarans sleppir jörðinni hreyfist massamiðja hans eins og kasthlutur. Tölurnar hér á undan eiga því við um það hversu mikið massamiðja hástökkvarans hækkar í stökkinu frá því að fóturinn sleppir þar til hún kemst í hæstu stöðu. Þessi hækkun er talsvert minni en hæðin sem skráð er á íþróttamótum, eða um 1-1,5 m. Hún mundi því aðeins breytast um 1-1,5 mm þegar hæðin breytist um 3,7 km. (Massamiðjan var áður fyrr kölluð þyngdarpunktur eða samsvarandi orði í öðrum tungumálum, en það orð er ekki notað lengur í eðlisfræði). Hlutfallsleg breyting á kastlengd í kúluvarpi og kringlukasti með hæð fylgir sömu reglu og hækkun massamiðjunnar í hástökki. Hins vegar er þá um miklu meiri heildarvegalengd að ræða þannig að breytingin verður betur mælanleg. Þannig ætti kúlvarpari sem kastar kúlunni 20,00 m við sjávarmál að geta kastað 2 cm lengra ef hann er í 3,7 km hæð, ef honum tekst að útiloka áhrif loftþynningarinnar. Kringlukastari sem kastar 60,00 m við sjávarmál ætti með sama fyrirvara að kasta 6 cm lengra í fjöllunum. Miklu flóknara er að meta heildardæmið, bæði þyngdarminnkun og loftþynningu, í stökkum og köstum með verulegri atrennu og í hlaupum. Ef einhver íþróttafróður lesandi vill fræða okkur meira um þá hluti er það vel þegið. Lesendum er bent á meiri fróðleik í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er massi hlutar ekki sama og þyngd hans?
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig er hægt að láta hvítu kúluna fara aðra leið en lituðu kúlurnar þegar hún fer ofan í holu á biljarðborði? eftir Emelíu Eiríksdóttur
- Hvað eru margar holur á golfkúlum? eftir Örn Helgason
- Hvernig getur fótbolti eða golfkúla sveigt til hægri eða vinstri á fluginu? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvers vegna er hagstætt fyrir sundmenn að synda í kafi og nota jafnvel ekki handleggina til að knýja sig áfram? eftir Kristján Rúnar Kristjánsson
- BBC Sports. Sótt 23.9.2009.