Hver var hentugasti tíminn út frá veðurfari og ríkjandi áttum fyrir landnámsmenn frá Noregi að sigla til Íslands?Ef átt er við árstímann er sumarið vissulega hagstæðast til siglinga milli landa. Vindurinn er að jafnaði hægastur á hlýjasta tíma ársins, í júní-ágúst. En líka er hagstætt að birtan sé sem mest að nóttunni, og það er um sumarsólstöður, í júní. Á sumrin er skýjafar líka að jafnaði hagstæðast. Þá er landið heitast og dregur að sér svalara loft sem lyftist yfir landinu og kólnar þegar það þenst út vegna minnkandi þrýstings. Þá þéttist í því rakinn og ský myndast, en utan við ströndina verður fremur niðurstreymi og hlýnun og ský eyðast, svo að sigling verður auðveldari. Skilyrði geta líka breyst eftir því hvort loftslag er tiltölulega kalt eða hlýtt. Mestu munar þá að á kuldaskeiðum má búast við meiri hafís við Ísland en ella, en hann olli miklum vandræðum og óvissu í siglingum. Svo virðist sem ísinn hafi verið tiltölulega lítill á landnámsöld. Á þrettándu öld virðist kuldi og hafís hins vegar hafa vaxið talsvert. Má jafnvel gera ráð fyrir að sú staðreynd hafi átt þátt í því að Íslendingar gengust undir stjórn Noregskonungs og fengu hann til að lofa því í Gamla sáttmála að láta sex skip sigla árlega til Íslands. Mynd:
- 601-1000 e. Kr. | Skipasaga.net. (Sótt 2. 10. 2015).