Sem dæmi má taka stjörnurnar Síríus B og Barnard stjörnuna. Sú fyrri er 26 sinnum bjartari en sólin okkar, svo til að njóta svipaðs hitastig og nú þyrfti jörðin að vera álíka langt frá Síríusi og Júpíter er frá sólinni okkar. Aftur á móti er Barnard stjarnan rauður dvergur sem er um 2.000 sinnum daufari en sólin. Ef að jörðin væri á sporbraut um Barnard stjörnuna þyrfti hún því að vera um tíu sinnum nær Barnard stjörnunni en Merkúr er frá sólinni. Hugmyndin um lífbelti stjörnu hefur sætt nokkurri gagnrýni. Hún þykir taka tillit til of fárra þátta sem koma að tilvist lífs. Til dæmis hefur mönnum dottið í hug að líf gæti verið að finna í höfum undir íshellunum Evrópu, einu tungla Júpíters, sem er langt fyrir utan lífbelti sólarinnar. Þar að auki tekur hugmyndin aðeins tillit til pláneta sem svipar til jarðarinnar og hún hundsar algerlega möguleikann á öðrum formum lífs en þeim sem byggjast á kolefni og vatni. Þrátt fyrir galla sína er hugmyndin um lífbelti stjörnu gagnleg þumalputtaregla, því hún siktar á einfaldan og fljótlegan hátt út þær stjörnur og plánetur sem að geta viðhaldið lífi í þeirri mynd sem okkur er kunnuglegust. Sem fyrsta nálgun er hún því ekki alslæm og óhætt er að segja að stjörnufræðingar myndu hafa mikinn áhuga á hverri þeirri plánetu sem að fyndist innan lífbelti stjörnu sinnar. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna er alltaf sagt að líf geti ekki þrifist á öðrum hnöttum nema þar sé vatn? Gætu ekki verið til lífverur sem geta lifað án vatns og sólar? eftir Guðmund Eggertsson.
- Fyrst Títan hefur lofthjúp, getur þá ekki verið að þar sé líf að finna? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvers vegna er ekki líf á öllum plánetum í geiminum? eftir EDS.
- Grein um lífbelti á stjörnufræðialfræðiorðabók David Darling.
- Lífbelti á Wikipedia.
- Myndin af lífbelti sólkerfisins er af heimasíðu NASA.