Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Enska hugtakið Value at Risk, skammstafað VAR, hefur verið þýtt á íslensku sem fé í húfi eða áhættuvirði. Hér verður notuð þýðingin fé í húfi.
Með fé í húfi er átt við hve mikið er talið að virði tiltekins eignasafns geti rýrnað á tilteknu tímabili undir eðlilegum kringumstæðum, það er þannig að tiltölulega litlar líkur séu á því að virði safnsins rýrni um meira en þetta. Til dæmis gæti það verið mat manna að einungis séu 5% líkur á því að verðsveiflur á hlutabréfamörkuðum verði til þess að ákveðinn hlutabréfasjóður rýrni að verðgildi um meira en 100 milljónir króna á næsta sólarhring. Miðað við þessar líkur, 5%, og þetta tímabil, einn sólarhring, er því hægt að segja að fé í húfi sé 100 milljónir króna. Vegna þess að 5% eru einn tuttugasti þá þýðir þetta líka að talið er að tuttugasta hvern dag að jafnaði muni sjóðurinn rýrna um 100 milljónir króna eða meira. Í öðrum sjóði kynni áhættan til dæmis að vera talin meiri þannig að krónutala sem skilgreind er á sama hátt væri þar metin sem 500 milljónir.
Einnig er auðvitað hægt að velja aðrar líkur og annað tímabil til viðmiðunar. Til dæmis gætu verið 1% líkur á því að sjóðurinn rýrnaði um meira en 500 milljónir króna á sólarhring eða 5% líkur á því að sjóðurinn rýrnaði um meira en 300 milljónir króna á viku. Aðrar krónutölur mundu svo gilda um aðra sjóði eins og áður.
Reikningarnir að baki þessum tölum geta verið talsvert flóknir og auðvitað því flóknari sem eignasafnið verður fjölbreyttara. Þannig þarf að taka tillit til sveiflna á gjaldeyrismörkuðum sé um eignir eða skuldir í mismunandi gjaldmiðlum að ræða. Ef skuldabréf eru meðal eigna þarf að meta líkur á því að skuldunauturinn standi ekki við skuldbindingar sínar og svo framvegis.
Svona útreikningar eru talsvert notaðir, bæði hérlendis og erlendis. Sérstaklega er algengt að styðjast við þá í fjármálafyrirtækjum til að fá mat á það hve mikla áhættu þau eða einstakir viðskiptavinir þeirra taka hverju sinni.
Frekara lesefni á Vísindavefnum: