Fyrri hluta ferils síns hélt Escher sig við nokkuð venjuleg verk, og gerði meðal annars mikið af myndum af landslaginu á Ítalíu. Eftir ferð til Miðjarðarhafsins árið 1936 heillaðist Escher af samhverfu og regluleika sem hann hafði séð á Spáni í verkum Mára, og hóf tilraunir með reglulegar skiptingar á flötum. Bróðir Eschers, sem var verkfræðingur, sá nokkrar af þessum fyrstu tilraunum og benti Escher á ritgerð eftir stærðfræðinginn George Pólya um samhverfur á flötum. Þrátt fyrir að hafa litla sem enga stærðfræðimenntun sökkti Escher sér í ritgerðina og náði miklu valdi á efni hennar, sem hann nýtti sér í verkum sínum. Árið 1941 birti Escher grein þar sem hann rannsakaði skiptingar eftir litum, og bjó til flokkunarkerfi fyrir form, liti og samhverfur. Þetta var órannsakað efni í stærðfræði, og vegna þessarar greinar líta margir á Escher sem stærðfræðing.
Escher hafði mikinn áhuga á óvenjulegum sjónarhornum og sjónskekkjum. Frægasta verk hans er án efa Afstæði (e. Relativity) og endurspeglar þessi áhugamál hans ágætlega. Undir lok 6. áratugarins fékk Escher áhuga á óendanleikanum og hvernig hann birtist í breiðgerri rúmfræði. Á þeim tíma gerði hann margar myndir þar sem hann sameinar þekkingu sína á þakningum flata og óendanleikanum, eins og sjá má á myndunum að neðan.
Escher dó í mars 1972 í bænum Laren í Hollandi, þá 73 ára. Verk hans vöktu fyrst mikla athygli á fimmta áratug síðustu aldar. Nú njóta þau mikillar virðingar og eru til sýnis á mörgum helstu listasöfnum heimsins. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna fóru Monet og Renoir að mála í impressjónískum stíl? eftir Ulriku Andersson.
- Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson.
- Af hverju er málverkið af Mónu Lísu svona frægt? Eru til fleiri gerðir af því en ein? eftir Auði Ólafsdóttur.
- F.H. Bool, J.R. Kist, J.L. Locher og F. Wierda. M.C. Escher: His life and complete graphic work. 1982. Harry N. Abrams, New York.
- Ævisaga Escher á heimasíðu MacTutor.
- Grein um M.C. Escher á Wikipedia.
- Allar myndir voru fengnar af Wikipedia og vefsíðu José Martínez Aroza.