Þeir sem keppa í skautahlaupi þurfa að ná sem mestum hraða eða skriði og þurfa ekki að gera neinar sérstakar kúnstir að öðru leyti. Þeir þurfa til dæmis ekki einu sinni að stöðva sig snögglega í markinu frekar en aðrir hlauparar, heldur geta látið sig renna eins og þeim sýnist eftir að þeir koma í mark. Keppendur í íshokkí þurfa á hinn bóginn að geta beygt eða stöðvað sig skyndilega og óvænt, og einnig að vera fljótir upp á mikinn hraða. Listhlauparar á skautum eru svo þriðji hópurinn með enn aðrar þarfir. Þeir þurfa að geta gert alls konar kúnstir, snúið sér í hringi, staðið á öðrum fæti og svo framvegis eins og við þekkjum. Þetta endurspeglast allt í því hvers konar skautar eru notaðir í hverri íþrótt um sig. Hlaupaskautar eru með beinu blaði og ná talsvert fram fyrir tána á fætinum. Þannig fær hlauparinn góða og langa spyrnu í hverju skrefi og getur náð miklum hraða á fyrirfram gefinni braut þar sem beygjur eru ekki of krappar. Skautarnir henta hins vegar illa fyrir snöggar beygjur eða skyndilega stöðvun. Hokkískautar eru með kúpt blað til að auðvelda leikmanninum að taka snöggar og óvæntar beygjur og stöðva sig skyndilega. Blaðið nær ekki verulega fram fyrir tær skautamannsins og fremst á því er horn eða oddur sem skapar spyrnu þegar leikmaður vill komast á mikla ferð á sem skemmstum tíma og er einnig notað þegar hann vill stöðva sig. Listskautar eru einnig með kúpt blað af svipuðum ástæðum. Fremst á því er ekki oddur heldur eins konar sagartennur sem auðvelda listdansaranum að gera kúnstirnar sem áður voru nefndar. Frá sjónarmiði eðlisfræðinnar er hreyfing á ís sérlega áhugaverð, einkum fyrir það að núningur er oft lítill. Hlutur á ís fer oft nálægt því að hlíta fyrsta lögmáli Newtons sem kallað er, en það segir að hlutur sem enginn heildarkraftur verkar á haldi ferð sinni og stefnu óbreyttri, hreyfist með öðrum orðum með jöfnum hraða eftir beinni línu. Þetta á nokkuð vel við um pökkinn í ísknattleik. Það á einnig við um bíl á ónegldum dekkjum á ísi og er ástæðan til þess að slíkir bílar láta illa að stjórn og þarf að beita sérstökum brögðum til að stýra þeim. Þá getur verið betra að kunna skil á fyrsta lögmáli Newtons, ef ekki í orði þá alltént í verki! Núningskrafturinn á skauta er lítill í stefnu skautans og þess vegna getur skautamaðurinn látið sig renna býsna lengi án þess að stöðvast, þó að hann hafist ekki að. Krafturinn þvert á skautann er hins vegar engan veginn lítill og það er einmitt hann sem skautamaðurinn notar til að stýra sér og til að knýja sig áfram með því að spyrna til hliðanna eins og við könnumst við. Því er enn við að bæta að snerting skauta og íss er ekki öll sem sýnist. Örlítið af ísnum bráðnar þar sem skautinn snertir hann og bræðsluvatnið er einmitt ein ástæðan til þess að skautinn rennur svo vel beint áfram. Þannig myndast rispurnar sem skautinn skilur eftir á ísnum og þetta skýrir einnig það sem áður var nefnt, að þverkraftur á skautann er verulegur. Mynd:
- wikipedia.org - Sótt 22. 6. 2011.