Hvers vegna léttist átak við að "dobla" það með blökkum? Er hægt að "dobla" átak endalaust þannig að hægt sé að lyfta 100 tonnum með annarri hendi, svo dæmi sé tekið?Áhaldið sem við köllum blökk, trissu eða skoruhjól (e. pulley) er gamalt. Líta má á það sem eins konar vogarstöng (lever). Við notum trissur einkum á tvo vegu, í fyrsta lagi þannig að ás hennar sé fastur en í öðru lagi þannig að hún leikur laus í ramma á bandinu og færist þegar togað er í það. Í fyrra tilvikinu verkar trissan eins og vogarstöng sem er til dæmis hengd upp í miðpunkti, við togum í hægri endann niður á við og vinstri endinn færist upp á við. Báðir endarnir færast jafnlangt og stærð kraftsins breytist ekki; vogarstöngin verkar í þessu tilviki með jafnmiklum krafti upp á við vinstra megin eins og við beitum niður á við hægra megin. Þegar ásinn í trissu er hengdur eða festur upp (sjá mynd að neðan, til vinstri) hegðar trissan sér nákvæmlega eins: Lyftikrafturinn hægra megin er jafnstór og togkrafturinn sem við beitum á bandið vinstra megin. Við lyftum hlutnum hægra megin jafnlangt og við togum bandið vinstra megin. Það eina sem breytist í báðum þessum dæmum er stefna kraftsins því að krafturinn frá okkur vísar niður á við en krafturinn á hlutinn sem við erum að lyfta vísar upp. Þetta getur vissulega skipt máli í ýmsum dæmum.

En við getum líka notað vogarstangir eins og járnkarla, hrífusköft eða sköft á matskeiðum til að breyta krafti og færslu. Ef hægri endinn á vogarstönginni er fastur, við hengjum hlut í miðpunkt hennar og lyftum vinstri endanum, þá þurfum við aðeins að beita krafti sem nemur helmingi af þyngd hlutarins. Þetta gerist þó ekki "ókeypis" því að við þurfum að færa vinstri endann tvöfalt lengri leið en hluturinn fer. Ef við festum nú upp endann á bandi og leggjum bandið um trissu með lóði í, þá gerist nákvæmlega það sama þegar við togum í bandið upp á við: Við þurfum aðeins að beita hálfum krafti til að lyfta lóðinu en þurfum hins vegar að draga bandið tvöfalt lengri vegalengd en lóðið fer. Ef okkur finnst óþægilegt að toga upp á við getum við til dæmis lagt bandið yfir trissu sem er föst við loftið og togað síðan niður á við (sjá mynd að ofan, til hægri). Ef við ráðum ekki við að lyfta lóðinu með þessum búnaði getum við tekið enn eina trissu og fest við þá fyrstu þannig að þær hreyfist saman. Með því helmingum við kraftinn aftur. Til að lyfta lóði sem er 200 kg þyrftum við þannig aðeins kraft sem svarar 50 kg en mundum toga bandið fjórum sinnum lengra en lóðið færist. Og svona getum við haldið áfram nokkrum sinnum eins og spyrjandi ýjar að. Þetta er þó varla hagkvæmt ef trissurnar verða mjög margar. Eigin þyngd þeirra og bandsins fer þá að segja til sín og sömuleiðis núningur, meðal annars vegna stífni í bandinu.
