Hægri og vinstri eru til úti í geimnum í nákvæmlega sama skilningi og á jörðu niðri. Ef við ferðumst út í geiminn heldur hægri hlið okkar áfram að vera sú hlið líkamans þar sem hjartað er ekki. Sá fótur sem við köllum vinstri fót hér á jörðinni verður áfram vinstri fótur. Ef við stöndum á ákveðnum fleti (gólfi) í geimfari getum við notað orðin hægri og vinstri til að lýsa afstöðu hlutanna í kringum okkur. Ef við mundum síðan velja flötinn beint á móti til að standa á mundi þetta að vísu snúast allt saman við, rétt eins og þegar við horfum á himininn frá suðurhveli jarðar. Við getum líka notað þessi orð til að lýsa afstöðu himintunglanna sem við sjáum út um gluggann ef við tilgreinum um leið hvar við erum stödd og hvernig líkami okkar snýr, til dæmis miðað við Pólstjörnuna ef við erum ennþá í sólkerfinu. Hitt er svo enn annar handleggur hvort náttúrulögmálin gera greinarmun á hægri og vinstri. Lengi vel töldu menn að svo mundi ekki vera en á síðustu áratugum hefur komið í ljós slíkur greinarmunur í tilteknum og afmörkuðum fyrirbærum í kjarneðlisfræði og öreindafræði. Það þýðir að við mundum geta komið vitsmunaverum úti í geimnum í skilning um, hvað er vinstri og hvað hægri hjá okkur, ef við kæmust í þokkalegt fjarskiptasamband við slíkar verur. Mynd:
- NASA. Sótt 15. 7. 2011.