Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hræðsla við töluna 13 er kölluð triskaidekafobia. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um uppruna þessarar fælni og hjátrúin sem tengist henni birtist í ýmsum myndum. Til að mynda hafa mörg hótel enga hæð sem kölluð er 13. hæðin, happdrætti forðast að gefa út miða númer 13, sumum finnst borðhald með 13 manneskjum óhugsandi og fjöldamorðingjar sem hafa 13 stafi í nafninu sínu eru tíndir til hjátrúnni til staðfestingar. Þegar þrettánda dag mánaðarins ber upp á föstudag á dagurinn að vera slíkur óheilladagur að sumt fólk forðast jafnvel að mæta til vinnu.
Sú skýring sem heyrist líklega oftast á neikvæðri ímynd tölunnar 13 er að við síðustu kvöldmáltíð Krists hafi verið samtals þrettán menn. Óorðið sem föstudagurinn þrettándi hefur á sér má svo meðal annars rekja til þess að krossfesting Krists á að hafa farið fram á föstudegi.
Stundum eru þó nefndar aðrar skýringar á triskaidekafobiu sem ekki verða raktar til kristni. Meðal annars er sagt að Hebrear til forna hafi litið á 13 sem óheillatölu vegna þess að þrettándi stafurinn í hebreska stafrófinu, M, er fyrsti stafurinn í orðinu mavet sem merkir ‘dauði’. Í Babylóníu, Kína og Róm til forna var litið á 12 sem heillatölu og 13 var þá óhappatala vegna þess að hún kemur næst á eftir 12. Einnig er sagt að bæði hindúar og víkingar hafi trúað því að það boðaði ógæfu ef þrettán manns söfnuðust saman. Þessar skýringar seljum við ekki dýrari en við keyptum þær. Eflaust er svo hefðin ein í mörgum tilfellum orsök fælni gagnvart þessari skemmtilegu prímtölu.
Á hinn bóginn er sagt að sumstaðar sé 13 talin heillatala. Þar eru til dæmis nefndir Forn-Egyptar, en hjá þeim var þrettánda skeið lífshlaupsins dauðinn, eða lífið eftir dauðann, sem hafði jákvæða merkingu.
Ekki er ljóst að umrædd fælni sé mjög útbreidd eða risti mjög djúpt hjá öllum. Okkur Íslendingum finnst til dæmis sjálfsagt að halda þrettánda dag jóla hátíðlegan og okkur eru bræðurnir þrettán í fjöllunum, jólasveinarnir, mjög hjartfólgnir. Í spilastokk eru svo þrettán spil af hverri gerð og ekki hefur það þótt koma að sök.
Heimildir:Cate SchoolThe Skeptic's DictionaryUrbanlegends.about.comWorld Wide Words
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Af hverju er hjátrú um töluna 13?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1694.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 12. júní). Af hverju er hjátrú um töluna 13? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1694
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Af hverju er hjátrú um töluna 13?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1694>.