Einstök óheppni veldur því að þau fáu málverk sem til eru eftir Leonardo hafa varðveist afar illa. Það sést best á Síðustu kvöldmáltíðinni, leifunum af þekktustu veggmynd hans. Til að sjá hana fyrir sér verða menn að setja sig í spor munkanna sem höfðu myndina fyrir augunum. Verkið þekur vegg í aflöngum sal sem var matstofa í Santa Maria delle Grazie klaustrinu í Mílanó. Menn geta ímyndað sér áhrifin þegar myndin var afhjúpuð og kvöldverðarborð Krists og postulanna kom í ljós við hliðina á langborðum munkanna. … Væntanlega voru munkarnir bergnumdir í fyrstu, myndin var svo raunsæ og sýndi hvert smáatriði, matarílátin og fellingarnar í dúknum. … Ekkert minnti á fyrri myndir af sama atburði. Hingað til höfðu postularnir ávallt setið rólegir í einni röð - að Júdasi undanskildum – meðan Kristur deildi út sakramentinu friðsæll á svip. Mynd Leonardos var allt öðruvísi. Listamaðurinn … reyndi að setja sér fyrir hugskotsjónir augnablikið þegar Kristur sagði: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig." Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég, herra?" (Matt. 26, 21-23). Jóhannesarguðspjall bætir við: "Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum. Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um." (Jóh. 13, 23-25). Það er þessi spurn og bending sem kemur hreyfingu á borðhaldið. … Sumir virðast halda fram ást sinni og sakleysi. Nokkrir spyrja alvörugefnir hver svikarinn kunni að vera. Aðrir bíða þess að Kristur skýri orði sín. Símon Pétur, sá bráðlátasti af lærisveinunum, hnippir í Jóhannes sem situr Kristi á hægri hönd og hvíslar í eyra honum og ýtir Júdasi fram í ákafanum. Svikarinn er ekki aðskilinn frá hinum en samt virðist hann einangraður. Hann er sá eini sem einskis þarf að spyrja. Hann hallar sér áfram og lítur upp tortrygginn eða reiður og fas hans er í hróplegri mótsögn við látbragð Krists sem situr rólegur og fjarrænn í miðju uppnáminu. … Forverar Leonardos höfðu lengi glímt við að uppfylla bæði kröfur raunsæis og myndbyggingar. Útkoman hjá Pollaiuolo varð bæði stíf og tilgerðarleg en Leonardo, sem var ögn yngri en Pollaiuolo, leysti auðveldlega þetta vandasama verk. … þrátt fyrir hörmulegt ástand er "Síðasta kvöldmáltíðin" eitt af kraftaverkum mannsandans.Hér kemur glöggt og ótvírætt fram að sá sem gat virst vera María Magdalena er í rauninni Jóhannes og lærisveinarnir eru því allir tólf á myndinni. Frá sjónarmiði vísindasögunnar er meðal annars vert að taka eftir því sem sagt er í lok tilvitnunarinnar um framförina sem varð í málaralist með snillingnum Leonardó, þó að eftir hann liggi allt of lítið af verkum. Framfarir í vísindum verða með svipuðum hætti og þarna er lýst um listina, og það er einmitt oft ekki magn verkanna sem ræður, heldur gæðin. Myndin í upphafi svarsins er af málaðri eftirmynd. Þeir sem vilja sjá hvernig myndinni er fyrir komið í klaustrinu í Mílanó og hvernig frummyndin lítur út nú á dögum geta smellt á eftirfarandi tengla:
- Il Cenacolo - vefsetur klaustursins í Mílanó
- Leonardo da Vinci's Zoomable Paintings - hér er hægt að fara með stækkunargler yfir myndina og stækka valda hluta hennar.
- Fotos.org - hér sést myndin í ágætri upplausn
- Af hverju er málverkið af Mónu Lísu svona frægt? Eru til fleiri gerðir af því en ein? eftir Auði Ólafsdóttur
- Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson