Hins vegar var jarðhitavatn notað til þvotta. Í Reykholti báru konur heim vatn úr hver í svo stórum katli að þær héldu á honum á stöng á milli sín. Í Skagafirði fóru konur til laugar með þvotta sína, hittust þar frá fleiri bæjum og skýldu sér í húsum við laugina. Þetta voru hversdagsatburðir og koma aðeins við sögu af því að þeir skópu tilefni til að sanna heilagleika dýrlinga okkar. Kona datt í hverinn í Reykholti og reyndist furðu lítið brunnin eftir að heitið hafði verið á hinn sæla Þorlák biskup. Hrafn stal skóm einnar konunnar í Skagafirði en skilaði þeim aftur þegar hún hafði ákallað Jón biskup Ögmundarson. Í Þorgils sögu skarða í Sturlungu kemur fram að kona þvoði þvott við Lýsuhvolslaug á Snæfellsnesi; hún er nefnd af því að Þorgils glensaði meira við hana, þegar hann kom til laugar, en bónda hennar líkaði. Kannski ber minna á jarðhitanotkun í heimildum en efni standa til af því að hún kom mest við hversdagsiðju kvenna. Engu að síður er greinilegt að jarðhitinn hefur verið vannýtt auðlind. Notkun jarðhita hefur væntanlega haldist í svipuðu formi langt fram eftir öldum. Í Íslandslýsingu Þórðar biskups Þorlákssonar sem kom út 1666 segir til dæmis að Íslendingar telji heilsusamlegt að baða sig í volgum laugum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og fleiri ritum 18. aldar er víða minnst á laugar og böð í þeim. En yfirleitt er samt ekki talað um jarðhita sem hlunnindi eða kosti á jörðum á þessum tíma, til dæmis ekki í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem var skráð á fyrstu áratugum 18. aldar. Í mikilli jarðhitasveit eins og Biskupstungum í Árnessýslu er varla minnst á jarðhita. Þó segir um Laugarás: „Eldivið spara hér hverarnir, en þar á mót drepst þar í peningur þess á milli.” Hér kann að vera átt við að sparist að hita þvottavatn, til dæmis til að þvo ull, en kannski hefur heitt hveravatn líka verið notað til eldunar. Á árunum 1773-93 var salt unnið á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp með því að sjóða sjó í hveravatni. Þetta var opinber framkvæmd í eigu konungssjóðs og einstæð á Íslandi á þessum tíma. Á 19. öld var tekið að skipuleggja notkun Þvottalauganna í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur; árið 1832 var fyrst reist þar hús fyrir þvottakonur. Um miðja öldina var tekið að rækta kartöflur í volgri jörð víða um land. En það beið 20. aldar að menn leiddu heitt vatn í hús sín til upphitunar. Fyrstur mun hafa gert það Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, líklega árið 1908, en Erlendur Gunnarsson á Sturlureykjum í Borgarfirði leiddi hveragufu í hús sitt um það bil þremur árum síðar. Á þriðja áratug aldarinnar var síðan tekið að nota hveravatn til ylræktar, við Þvottalaugarnar í Laugardal og á Reykjum í Mosfellssveit. Upp úr þessu hófst jarðhitanotkun Íslendinga að marki, og er skýrt rækilega frá henni í afar vandaðri bók Sveins Þórðarsonar, Auður úr iðrum jarðar, sem kom út árið 1998 í Safni til iðnsögu Íslendinga. Mynd:
- Wikipedia.is. Sótt 5.8.2010.