Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er nei: Forystusauðir voru yfirleitt sauðir, það er að segja vanaðir hrútar, og forystufé virðist lengst af oftast hafa verið sauðir, meðan þeim var til að dreifa.
Orðið sauður hefur tvær merkingar sem skipta máli hér. Annars vegar getur það þýtt (a) 'vanaður hrútur' en hins vegar getur það einfaldlega þýtt (b) 'kind, sauðkind', það er að segja hvaða einstaklingur sem er af tegundinni 'tamin sauðkind' (Ovis aries), hvort sem það er ær eða hrútur, lamb eða sauður í fyrri merkingunni.
Til er skemmtileg bók sem heitir einfaldlega Forystufé og er eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp í Húnavatnssýslu (Reykjavík: Búnaðarfélag Íslands, 1953). Féð sem þar er sagt frá er að mestu leyti sauðir (í merkingu (a)) en einnig nokkrar forystuær. Hrútar koma við sögu þegar sauðirnir hafa ekki verið vanaðir strax og eins þegar verið er að rækta upp forystuhæfileika. Þegar talað er um forystusauði í þessari bók fer ekki milli mála að átt er við 'sauði' í merkingu (a) hér á undan.
Ásgeir hefur eftirfarandi ummæli eftir Karli Kristjánssyni í útvarpsþætti 16. júní 1952:
Gott forystufé hefur jafnan verið sauðfjárbændum á Íslandi ánægjuleg eign og þörf.
Forystukindin er fædd til köllunar. Hún er sjálfkjörinn foringi hjarðarinnar - gædd vitsmunum, fjöri, djörfung, framtaki og umhyggju fyrir hópnum.
Úrvalsforystukind er bónda á útbeitarjörð meira virði en metið verði til peninga. Hún er félagi hans við gæzlu hjarðarinnar og hagnýtingu beitilandsins, - gleður hann þar að auki að sínu leyti eins og góðhesturinn eiganda sinn, þótt með öðrum hætti sé. [Bls. 205]
Í bók Ásgeirs er bæði sagt frá ýmsum afrekum forystufjár og eins er kindunum lýst á eftirminnilegan hátt og af mikilli innlifun. Við sýnum hér eitt dæmi, um forystusauð frá Guðlaugsstöðum í Húnavatnssýslu:
Kápur var mikill vexti og gjörvulegur, höfuðstór, svipmikill og djarflegur, augun skýr, rannsakandi og gáfuleg. Hann bar stóra, skálarlagaða hnýfla og hljómmikla silfurklukku í öðrum þeirra. Hann bar í svipmóti og öllu fasi og framgöngu foringja- og höfðingsbraginn með sér, svo ekki varð á villzt. ...
Kápur sýndi mikla vitsmuni með margt og þótti með afbrigðum veðurglöggur og svo næmur fyrir öllum veðrabrigðum, að honum mátti betur treysta en veðurstofu nútímans. [Bls. 69-70]
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru forystusauðir yfirleitt hrútar?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1643.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 25. maí). Eru forystusauðir yfirleitt hrútar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1643