Ég veit að háhyrningar ráðast í hópum á stærri hvali en hvar eru takmörk þessara veiðisnillinga?
Háhyrningurinn (Orchinus orca) er stærsta tegundin innan ættar höfrunga (Delphinidae). Fullvaxið karldýr getur orðið allt að níu og hálfur metri á lengd og fimm og hálft tonn. Kvendýrin eru talsvert minni. Háhyrningar finnast í öllum heimshöfum, frá nyrstu hafsvæðunum við Norðurpól til hafsvæðanna við strendur Suðurheimskautsins. Háhyrningar eru oft kallaðir úlfar hafsins enda eiga þeir, eins og úlfar, velgengni sína að þakka greind og sterkum og þróuðum félagslegum tengslum meðlima hópsins. Einnig eru þeir mjög skipulagðir við veiðar líkt og úlfar. Það er því ekki að ástæðulausu sem þessi dýr eru kölluð 'killer whale' á ensku, eða 'drápshvalur'. Rannsóknir á fæðuvali háhyrninga bendir til að þeir séu algjörir tækifærissinnar á því sviði. Greiningar á magainnihaldi þeirra hafa leitt í ljós ótrúlega fjölbreytni í fæðuvali. Meðal annars hafa fundist leifar fjölmargra tegunda af fiskum, selum og sæljónum, hvalategunda, bæði stórra og smárra, og einnig leifar annarra háhyrninga. Þó hafa rannsóknir sýnt að við Suðurheimskautið er fiskur tveir þriðju hlutar fæðumagns, sjávarspendýr 27% og smokkfiskur 6%. Hliðstæðar rannsóknir í Beringssundi við Alaska sýna að fiskar eru 65% af heildarfæðu háhyrninga þar en smokkfiskur 20% og sjávarspendýr 15%. Háhyrningar eru “topprándýr” hafsins, efstir í fæðukeðju rándýra. Þeir eiga þar af leiðandi enga náttúrulega óvini nema manninn. Vitað er að háhyrningar ráðast á stærstu hvali og skipverjar á rannsóknarskipinu Sea World urðu eitt sinn vitni að slíku atviki er þeir voru við rannsóknir á farsundi sverðfiska á miðju Atlantshafi. Þá réðst hópur þrjátíu háhyrninga á steypireyði (Balaenoptera musculus) sem var rúmlega 18 metrar á lengd, og rifu hana í sig. Annað sérstætt atvik varð við Farallon eyju undan ströndum Kaliforníu fyrir nokkrum árum. Tveir háhyrningar voru þá við veiðar á sæljónum (Zalophus californianus) þegar 4 metra langur hvíthákarl (Carcharodon carcharias) kemur syndandi að þeim (sennilega hefur hann laðast að blóðlyktinni). Samkvæmt sjónarvottum syndir þá annar háhyrningurinn strax að hvíthákarlinum, ræðst á hann, rífur lifrina úr honum og syndir svo í burtu en skilur hákarlinn eftir deyjandi. Eins og þessi dæmi sýna getur hópur háhyrninga sennilega ráðið við hvaða dýr hafsins sem er og sennilega eru ekki nein takmörk fyrir því hvað þeir geta veitt. Það merkilega er þó að ekki eru til nein skráð tilvik um að háhyrningar hafi ráðist á fólk þrátt fyrir að þeir séu svona miklir tækifærissinnar í fæðuvali.