Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið líkormur vísar til lirfa fjölmargra skordýrategunda sem verpa eða setja lifandi lirfur sínar í ýmiss konar hræ eða sár dýra.
Talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar á framvindu skordýralífs í hræjum. Mismunandi stigum í rotnunarferli hræs fylgir mismunandi samsetning örvera og skordýra. Menn hafa greint framvindu rotnunar í nokkur stig.
Á fyrsta stigi rotnunarferlis eru ýmsar tegundir örvera sem taka þátt í að brjóta niður lífræn efni. Hræið er tiltölulega ferskt og á þessu stigi kemur fyrsta bylgja skordýra, sem venjulega eru maðkaflugur og húsflugur. Þær verpa eggjum eða láta nýklaktar lirfur í hræið. Hjá maðkaflugum verpir hvert kvendýr á bilinu 200 til 400 eggjum. Lirfur þessar, sem sumir kalla líkorma, þroskast í hræinu þar til þær ná ákveðnu stigi. Þá skríða þær úr hræinu og púpa sig annars staðar. Lirfur maðkaflugnanna eiga mjög auðvelt með að bora sig í gegnum hold dýra, lifandi eða dauðra, og hafa til þess geysilega sterka kjálka. Þær kallast enda á ensku screw-worm, sem útleggja mætti sem skrúfuorm eða bororm á íslensku.
Innan örfárra daga hefst annað stigið þar sem hræið er tekið að úldna og eftir tvær vikur gengur í garð þriðja stigið sem mætti kalla svartýldustig (e. black putrefaction stage). Síðan hefst það fjórða, þar sem sýrur, aðallega smjörsýra eða bútansýra (C4H8O2) sem verður til vegna efnahvarfa í lífrænum efnasamböndum af völdum gerjunar, eru í aðalhlutverki. Á þessu stigi lyktar hræið svipað og sumir ostar.
Á þessum síðari stigum heimsækja aðrar tegundir hræið og má þar helst nefna bjöllur (Coleoptera), aðallega innan ættarinnar Dermestidae. Lirfur innan tvívængja (Diptera) eru einnig algengar í hræjum. Á eftir þeirri bylgju taka við tegundir af ættunum Drosophilidae og Syrphidea. Að lokum er hræið orðið þurrt og endar það stig með því að aðeins beinin verða eftir.
Sú þekking sem hefur skapast í rannsóknum á rotnunarframvindu og tegundasamsetningu skordýra í hræi eða líki hefur reynst ómetanleg fyrir lögregluyfirvöld víða um heim. Hún nýtist meðal annars við að meta tímasetningu morða.
Fyrri myndin sýnir maðkaflugu og er fengin hjá Britannicu.com
Síðari myndin sýnir lirfur maðkflugunnar og er líka fengin hjá Britannicu.com
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru líkormar og hvernig verða þeir til?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1538.
Jón Már Halldórsson. (2001, 26. apríl). Hvað eru líkormar og hvernig verða þeir til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1538
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru líkormar og hvernig verða þeir til?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1538>.