- Íslensk málnefnd er lögum samkvæmt málverndar- og málræktarstofnun. Hlutverk hennar er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál. Hún á einnig að leitast við að hafa góða samvinnu við þá sem mikil áhrif hafa á málfar almennings, svo sem fjölmiðla og skóla. Málnefndin vinnur að skipulagðri nýyrðastarfsemi í landinu. Hún hefur samvinnu við orðanefndir, sem félög eða stofnanir hafa komið á fót, og er þeim til aðstoðar. Um málnefndina má lesa á heimasíðu Íslenskrar málstöðvar
- Nýyrðasmíð er afar mikilvægur þáttur málverndar. Hún felst í því að annars vegar er leitast við að búa til ný íslensk orð yfir erlend hugtök, en hins vegar að laga erlend orð að íslensku málkerfi. Nýyrði er víðara hugtak en íðorð og nær yfir ný orð sem búin eru til yfir hluti eða hugtök sem ekki höfðu íslenskt heiti áður. Íðorðin eru yfirleitt sérfræðiorð í einhverri fræðigrein eða á öðrum sérhæfðum sviðum.
- Fræðsla og leiðbeiningar eru hluti málverndar. Í grunn- og framhaldsskólum er mikil rækt lögð við rétta beitingu málsins. Handbækur ýmiss konar, svo sem orðabækur, stafsetningarorðabók, samheitabók, orðtakabækur og nafnabækur, hjálpa til við að nota málið rétt og nefna má að Orðabók Háskólans og Íslensk málstöð svara fyrirspurnum almennings um málnotkun.
Útgáfudagur
17.4.2001
Spyrjandi
Martha Hermannsdóttir, f. 1983
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hvaða aðferðum beitum við til málverndar?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1509.
Guðrún Kvaran. (2001, 17. apríl). Hvaða aðferðum beitum við til málverndar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1509
Guðrún Kvaran. „Hvaða aðferðum beitum við til málverndar?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1509>.