Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Meginheimildir um stofnun Þórsnesþings á Snæfellsnesi eru Landnámabók og Eyrbyggja saga. Þær eru hins vegar ekki óháðar heimildir þar sem líklegt þykir að Sturla Þórðarson (1214-1284) hafi stuðst við Eyrbyggja sögu í þeirri Landnámugerð sem við hann er kennd og er sú elsta þar sem segir frá Þórsnesþingi.
Í þessum heimildum kemur fram að landnámsmaðurinn Þórólfur Mostrarskegg hafi sett héraðsþing á Þórsnesi þar sem Þórslíkneski hans hafði rekið á land. Samkvæmt Eyrbyggju og Íslendingabók Ara fróða er upphaf fjórðungaþinga rakið til þess að barist var á Þórsnesþingi. Ef marka má Eyrbyggju gerðist þetta 932-34. Eftir bardagann var þingið fært inn í nesið, „þar sem nú er“ að sögn Eyrbyggju sem mun vera rituð um 1260. Í Eyrbyggju kemur fram að á Þórsnesþingi hafi verið fjórðungsþing Vestfirðinga, eftir að þeim var komið á. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (1155-1211) staðfestir þetta. Ekki er vitað hversu lengi fjórðungaþingin störfuðu en þau munu hafa verið aflögð þegar kirknaskráin er gerð.
Stykkishólmur stendur á Þórsnesi.
Á 13. öld réðu Sturlungar öllu því sem þeir vildu á Þórsnesþingi. Þórður Sturluson hafði þingið uppi 1227 „sem þeir bræðr höfðu ráð fyrir gert”. Árið 1235 vildi hann „eigi hafa þing, því hann vildi fara til móts við Sighvat” (Sturluson, bróður hans) og virðist þá þing hafa fallið niður.
Eftir að þjóðveldið leið undir lok 1262 liðu vorþing undir lok, en héraðsþing voru áfram haldin á vorþingsstöðum. Alþingi var nú dómþing og hét æðsti dómstóllinn lögrétta. Í henni sátu 36 lögréttumenn, eða þrír úr hverju þingi. Bændur sem voru tilnefndir til þingreiðar voru ögn fleiri, eða 84. Þar af komu sex úr Þórsnesþingi. Það hefur því lifað sem stjórnsýslueining í tengslum við þingstörf á Alþingi. Árið 1304-5 virðist sem að hvorki Vestfirðingar né Norðlendingar hafi sótt Alþingi. Héldu þeir héraðsþing í staðinn og voru tvö í hvorum fjórðungi. Í Vestfirðingafjórðungi voru þau haldin í Þorskafirði og á Þórsnesi.
Samkvæmt Jónsbók náði Þórsnesþing „sunnan og vestan Hvammsfjarðar” yfir núverandi Snæfells-, Hnappadals- og Dalasýslu. Snæfellssýsla er fyrst nefnd í skjali 1546, en Dalasýsla 1548.
Mynd:
Sverrir Jakobsson. „Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1504.
Sverrir Jakobsson. (2001, 17. apríl). Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1504
Sverrir Jakobsson. „Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1504>.