Ein tegund klaufhala, garðaklaufhali (Forficula auricularia), berst reglulega til landsins með ýmsum varningi, ekki síst grænmeti. Hann berst í mismiklum mæli eftir því hvernig honum vegnar úti í Evrópu, en árskipti eru af honum þar. Hann fannst fyrst í Reykjavík 1902. Stundum voru uppi vísbendingar um að hann væri að stinga sér niður á landinu, til dæmis í gróðurhúsum. Slíkum tilfellum fór svo fjölgandi þegar leið að aldamótum. Dæmi voru um fasta bólsetu í húsum eða þeim tengt á Álftanesi og í Búðardal. Ljóst er orðið að garðaklaufhali hefur sest að í Hólahverfi í Reykjavík en þar finnst hann árlega í nokkrum mæli á vissum stöðum. Garðaklaufhalar hafa fundist víða um land, flestir á höfuðborgarsvæðinu, einnig í Grindavík, Búðardal, á Grundarfirði, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki og Akureyri, svo og undir Eyjafjöllum. Garðaklaufhali nærist einkum á rotnandi plöntu- og dýraleifum og er einkar sólginn í skemmda ávexti. Dýrin athafna sig einkum að næturlagi og safnast þá gjarnan margir saman í æti. Á veturna koma kvendýrin sér fyrir í holu í jörðu og verpa þar á tímabilinu nóvember til mars. Þau annast eggin og sjá til þess að þau þroskist eðlilega og verði ekki sýkingum að bráð. Þegar eggin klekjast deyja mæðurnar og eru étnar upp af afkvæmum sínum. Heimildir:
- Bjarni Sæmundsson 1931. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1929–30: 32–39.
- Erling Ólafsson 1993. Athyglisverð skordýr: Garðaklaufhali. Náttúrufræðingurinn 63: 158.
- Tuxen, S.L. 1938. Orthoptera and Dermaptera. Zoology of Iceland III, Part 38. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 5 bls.
- Klaufhali. © Erling Ólafsson. Sótt 12.1.2010.
Getið þið frætt mig um klaufhala? Sem fyrst og sem mest. Þeir eru ekki vinir mínir!!!
Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Svarið er birt hér í örlítið breyttri mynd. Almennt um klaufhala af vef NÍ. (uppfært 15.5.2018) Um garðaklaufhala af vef NÍ. (uppfært 15.5.2018)