Stúdentar og menntaskólanemar skipuðu sameiginlega nefnd veturinn 1906-1907 um húfumálið en lítill árangur varð af starfi nefndarinnar. Árið 1910 komst húfumálið aftur á dagskrá hjá skólafélaginu Framtíð en það voru einkum Héðinn Valdimarsson (1892-1948), síðar stjórnmálamaður og verkalýðsforingi, og Guðmundur Kamban (1888-1945) rithöfundur sem létu málið til sín taka. Héðinn taldi brýnt að teknar yrðu upp íslenskar stúdentshúfur þar sem brátt yrðu brautskráðir fyrstu stúdentar úr íslenskum menntaskóla og íslenskur háskóli tæki senn til starfa. Reykjavíkurskóli var þá ekki lengur konunglegur danskur latínuskóli. Ekki urðu menn þó á eitt sáttir, ýmsar hugmyndir og tillögur að húfum komu fram, nefndir skipaðar um málið og auglýst eftir tillögum í blöðum. Það fór því svo að menn náðu ekki samkomulagi fyrir útskriftina og það sést glöggt á stúdentsmyndinni frá árinu 1910. Sumir báru bátslaga, skyggnislausa húfu, aðrir danskar stúdentshúfur, sumir voru með hvítan koll en aðrir svartan.Árið 1913 var Anna Louise Ásmundsdóttir (1880-1954), sem síðar stofnaði Hattabúð Reykjavíkur, fengin til að hanna íslenskar húfur en þær voru hins vegar ekkert notaðar. Í janúar 1914 ákvað félag stúdenta síðan að taka upp húfu sem var hönnuð af Jóni J. Víðis sem seinna varð landmælingamaður.[2] Hún hafði svipaða lögun og sú danska en helsti munurinn var sá að hún var með íslensku krossmerki og bláum og hvítum snúrum á borðanum. Árið 1916 var rauðum lit bætt við snúruna og frá þeim tíma hefur snúran verið í sömu litum og þjóðfáninn sem tekinn var í notkun þegar Ísland varð fullvalda árið 1918. Sex árum síðar eða 1924, vék krossmerkið fyrir fimmarma stúdentsstjörnu. Fimmarma stjarnan er ævafornt tákn sem þekktist til að mynda meðal Pýþagórasar (580-500 f.Kr.) og fylgismanna hans en þeir litu svo á að hún stæði fyrir samstillingu hins líkamlega og andlega. Fimmarma stjarnan er einnig kunn af ýmsum fornum skreytingum Etrúra og Egypta og hægt er að lesa meira um tákngildi stjörnunnar í svari við spurningunni Hvað er fimmarma stjarna, fyrir hvað stendur hún? Í stuttu máli má segja að fimmarma stjarna íslensku stúdentshúfunnar eigi að tákna ákveðna tegund af fullkomnun og samræmi líkama og sálar. Með því að taka hana upp í staðinn fyrir krossmerkið var líka hægt að aðgreina íslensku stúdentshúfurnar betur frá þeim dönsku. Tilvísanir:
- ^ Ísafold, 11.08.1900 - Timarit.is. (Sótt 31.05.2018).
- ^ Stúdentablaðið, 16. árgangur 1939, 1. Tölublað - Timarit.is. (Sótt 26.09.2018).
- Fyrsta konan í IMFR | Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. (Sótt 30.05.2018).
- Vísindavefurinn: Hvað er fimmarma stjarna, fyrir hvað stendur hún?. (Sótt 31.05.2018).
- Vísindavefurinn: Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?. (Sótt 31.05.2018).
- Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Höfundar Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir, Magnús Guðmundsson. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2011. Bls. 55.
- Fréttablaðið, 16.05.2006 - Timarit.is. (Sótt 31.5.2018)
Höfundur þakkar Má Viðari Mássyni fyrir ábendingu um grein í Stúdentablaðinu þar sem fjallað er um 25 ára afmæli íslensku stúdentshúfunnar.
Arnheiður spurði: Hvers vegna er stjarna tengd stúdentum og stúdentaútskrift? (sbr. stjarnan á stúdentshúfunni og hálsmen fyrir stúdenta með stjörnu á) Helga Magnadóttir spurði: Er einhver sérstök ástæða fyrir því að breytt var úr krossmarki yfir í stjörnu á stúdentahúfum, og hvenær fóru skiptin fram