Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Upphafleg spurning var á þessa leið: Hver er skilgreiningin á einkabifreið? Hefur maður sömu réttindi þar eins og heima hjá sér (er maður „heima hjá sér" undir stýri)?
Bifreið er skilgreind svo í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987:
a. Vélknúið ökutæki sem ekki telst torfærutæki og aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga og er á fjórum hjólum eða fleiri eða á þremur hjólum og 400 kg að eigin þyngd eða meira og hannað er til hraðari aksturs en 30 km á klst. eða aka má svo hratt án verulegra breytinga.
b. Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til að draga annað ökutæki og hannað er til hraðari aksturs en 30 km á klst.
c. Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga og/eða til að draga annað ökutæki og er búið beltum og eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum og er 400 kg að eigin þyngd eða meira.
Engin sérstök skilgreining er til í íslenskum lögum á einkabifreið. Skilgreining bifreiðar í 2. gr. umferðarlaga hefur einkum þýðingu í umferðarlögum og skiptir því litlu máli í því samhengi hvort fólk njóti sömu friðhelgi þar og heima hjá sér.
Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þá segir í 2. mgr. að ekki megi gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama eigi við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Þá segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Þrátt fyrir að hér sé ekki minnst á bifreiðar eða önnur farartæki nær friðhelgi heimilisins líka til þeirra með rýmkandi lögskýringu. Þar með er ekki sagt að menn hafi í öllum tilvikum sömu réttindi í bílum sínum og heima hjá sér.
Þegar fólk er í bíl öðlast það vitaskuld margvíslegar skyldur, til dæmis samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987. Þannig er mönnum til dæmis frjálst að drekka áfengi á heimili sínu en enginn má stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki, ef hann er undir áhrifum áfengis, sbr. 45. gr. umferðarlaga.
Of langt mál er að telja upp allan þann mun sem er á réttindum og skyldum manna á heimili þeirra annars vegar eða í bifreiðum þeirra hins vegar. En það sem fyrirspyrjandi hefur væntanlega fyrst og fremst í huga er hvort lögreglan geti til dæmis leitað í bifreiðum manna. Þeirri spurningu er svarað í 92. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þar birtist sú meginregla að leit verður ekki gerð í húsi manns, geymslustöðum, hirslum, skipum og öðrum farartækjum nema úrskurður dómara þess efnis liggi fyrir, nema sá sem í hlut á samþykki það. Sömu skilyrði eru samkvæmt þessu sett fyrir leit á heimili manns og í bifreið hans.
Sú undantekning er gerð frá kröfunni um dómsúrskurð til húsleitar eða leitar í bifreið að samkvæmt 2. mgr. 90. gr. er veitt heimild til leitar án dómsúrskurðar ef hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Samkvæmt ákvæðinu má einnig leita án úrskurðar að manni sem á að handtaka ef honum er veitt eftirför eða hætta er á að hann komi sér undan handtöku. Þá er rétt að geta þess að í 2. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir að lögreglumaður geti fært ökumann til blóð- og þvagrannsóknar ef grunur er um akstur undir áhrifum áfengis. Er ökumanni þá skylt að hlíta þeirri meðferð sem læknir telur nauðsynlega vegna rannsóknar.
Á aðra farþega en ökumann eru ekki lagðar miklar skyldur, aðrar en eðlilegar taumhaldsskyldur, svo sem að trufla ekki akstur. Þó má nefna að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. umferðarlaga skal hver sá, sem notar sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti, nota beltið þegar bifreiðin er á ferð. Þá ber og að hlíta öðrum öryggisreglum. Farþegar í bifreiðum hafa sama rétt til friðhelgi og heima hjá sér. Til dæmis nytu minnisbækur eða dagbækur sem þeir geymdu í bifreið friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar.
Svarið við spurningu fyrirspyrjanda er því það að sú vernd sem friðhelgi heimilisins er veitt í 71. gr. stjórnarskrárinnar nær einnig til einkabifreiðar. Þar með er þó ekki sagt að menn séu heima hjá sér í bifreiðum sínum. Menn hafa margvísleg önnur réttindi og aðrar skyldur í einkabifreið en heima hjá sér.
Sjá einnig svar Skúla Magnússonar við spurningunni Hve langt er lögreglunni heimilt að ganga gagnvart einkalífi einstaklings, án sérstakrar heimildar?
Halldór Gunnar Haraldsson. „Erum við heima hjá okkur þegar við sitjum undir stýri?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1464.
Halldór Gunnar Haraldsson. (2001, 4. apríl). Erum við heima hjá okkur þegar við sitjum undir stýri? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1464
Halldór Gunnar Haraldsson. „Erum við heima hjá okkur þegar við sitjum undir stýri?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1464>.