Sjö drottningar sem ógna hver annarri ekki.
Þá lesendur sem fóru að ráðum okkar og settu nokkrar drottningar niður er örugglega farið að gruna að svarið við spurningunni sé að það sé ómögulegt að koma átta drottningum fyrir á skákborði. Þetta er hins vegar ekki rétt, eins og sést með því að skoða lausnina hér að neðan:
Átta drottningar sem ógna hver annarri ekki.
Þessi þraut er kölluð átta drottninga vandamálið. Skákmaðurinn Max Bessel setti hana fram árið 1848 og Frank Nauck leysti hana fyrstur manna tveimur árum seinna. Nauck skoðaði líka almennara vandamál, eða n drottningavandamálið. Í því má skákborðið vera eins stórt og vera skal og við viljum koma jafn mörgum drottningum fyrir á borðinu og við getum. Margir stærðfræðingar, þar á meðal Carl Friedrich Gauss (1777 - 1855) og George Cantor (1845 - 1918), hafa rannsakað þetta almennara vandamál og einhverjar rannsóknir á því standa enn yfir í dag. Menn hafa sannað að ef talan n er stærri eða jöfn 4 þá er alltaf hægt að koma n drottningum sem ógna hver annarri ekki fyrir á taflborði af stærðinni n x n. Athyglisvert er að uppfinning tölvunnar jók skilning manna á þessu vandamáli verulega. Með tölvum var til dæmis sannað að það eru til nákvæmlega 92 lausnir á átta drottninga-vandamálinu. Þetta þýðir að á meðan það er hægt að raða átta drottningum á taflborð á 4.426.165.368 mismunandi vegu, þá eru aðeins 92 af þessum möguleikum gildar lausnir á þrautinni. Að svona fáar lausnir séu til er ein af ástæðunum fyrir að þrautin er jafn erfið viðureignar og raun ber vitni. Ef einhverja lesendur þyrstir í svipuð vandamál geta þeir spreytt sig á að raða 9 drottningum og einu peði á taflborð þannig að engin drottning ógni annarri. Heimildir og tengt efni á Vísindavefnum:
- Er hægt að leysa þessa þraut sem ég og vinnufélagarnir höfum glímt við í meira en eitt ár? eftir Gunnar Þór Magnússon.
- Hvað er skák? eftir Hrannar Baldursson.
- Af hverju er stærðfræði til? eftir ÞV.
- Átta drottninga vandamálið á Mathworld.
- Grein um þrautina á Wikipedia.
- Myndirnar voru búnar af höfundi með hjálp forrits á heimasíðu Chessvideos.