Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær verður teinn að öxli?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Þessa spurningu má skilja á mismunandi vegu. Til dæmis ræðst það af því hvernig orðin teinn og öxull eru túlkuð. Sumir telja til dæmis að sverleiki ráði því hvort sívalningur kallast öxull eða teinn. Spurningunni um hvernig greina skuli öxla frá teinum með tilliti til sverleika hefur verið svarað hér af Ólafi Páli Jónssyni. Svar Ólafs Páls gæti í raun, að breyttu breytanda, einnig verið svar við spurningum á borð við „Hvenær verður hóll að fjalli?” eða „Hvenær verður barn unglingur?”.

Spurninguna „Hvenær verður teinn öxull?" má einnig skilja sem spurningu um skilgreiningu á hlutverki þess teins sem kalla má öxul. Þá er gert ráð fyrir að hver sá teinn sem kallast getur öxull gegni ákveðnu hlutverki. Spyrjendur leggja til eftirfarandi skilgreiningu: „Þegar teinn er farinn að flytja afl frá einum enda til annars er hann orðinn öxull." Þessa skilgreiningu mætti ef til vill víkka út að vissu marki. Í Íslenskri orðabók er til dæmis talað um öxul sem snúningsás eða möndul. Segja má því að öxull sé teinn eða ás sem snýst eða sem eitthvað snýst um. Hann flytur þá ýmist afl frá einum enda til annars eða frá öxli til hjóls eða milli hjóla. Við getum þá sagt: „Þegar teinn er farinn að flytja afl með því að snúast (hvort heldur frá einum enda til annars, til hjóls eða milli hjóla) er hann orðinn öxull.”

Þar sem þetta er sett fram sem skilgreining á öxli má gera ráð fyrir að hún skuli gilda á hinn veginn líka; það er að teinn sem ekki sé farinn að flytja afl með því að snúast geti ekki verið orðinn að öxli.

Helsti gallinn við að skilgreina öxla á þennan hátt er sá að ef teinn verður ekki öxull fyrr en hann fer að flytja afl með því að snúast verður ómögulegt að tala um öxla sem ekki hafa verið teknir í notkun enn. Ef farið er í varahlutaverslun og spurt um nýjan öxul ætti varahlutasalinn, ef hann vill gæta fullrar nákvæmni í orðnotkun, að segja: „Þar sem við seljum aðeins ónotaða hluti hér seljum við enga öxla. Ég get hins vegar selt þér tein sem hæfur er til að verða öxull ef þú kemur honum fyrir á réttan hátt." Mat sitt á því hvaða teinar eru hæfir til að verða öxlar gæti varahlutasalinn svo kannski að einhverju leyti byggt á svari Ólafs Páls Jónssonar um greinarmun á teinum og öxlum út frá sverleika.

Einnig má spyrja hvort þessi skilgreining feli í sér að teinn hætti að vera öxull um leið og hann hættir að flytja afl með því að snúast, og þá hvort ómögulegt sé að tala um öxul á kyrrstæðum hlut. Er kannski nóg að teinninn hafi einhvern tíma fullnægt þessu skilyrði þótt hann geri það ekki lengur eða ekki þessa stundina?

Til að forðast þennan vanda má reyna að gera skilgreininguna sveigjanlegri. Í stað þess að gera þá kröfu að teinninn flytji í raun og veru afl frá einum enda til annars má segja sem svo að hver sá teinn sem ætlað er það hlutverk að flytja afl með því að snúast skuli teljast öxull. Þá veltur það hvort teinn verður öxull eingöngu á hugmyndum þeirra sem smíða hann eða þeirra sem ætla sér að nota hann. Sívalningur sem framleiddur er sérstaklega í þeim tilgangi að flytja seinna meir afl á þann hátt sem lýst hefur verið er þá öxull, hvort sem hann er nokkurn tíma notaður eður ei.

Í framhaldi af þessu má auðvitað benda á að tilgangur með framleiðslu hluta liggur ekki alltaf fyrir. Við getum vel hugsað okkur að í verksmiðju nokkurri séu framleiddir stálsívalningar sem nothæfir eru á mismunandi vegu. Sumir þessara teina, sem allir eru eins, eru á endanum notaðir sem öxlar en aðrir ekki. Eru þessir sívalningar þá allir öxlar um leið og þeir hafa verið framleiddir eða verða aðeins sumir þeirra öxlar um leið og einhver hefur ákveðið að nota þá á þann hátt? Ef stálsívalningur sem framleiddur er í óljósum tilgangi verður öxull um leið og einhver ákveður að nota hann sem öxul, hvað gerist þá ef sá hinn sami hættir svo við að nota hann sem öxul áður en hann tekur hann í notkun? Á sívalningurinn sér þá stuttan feril sem öxull án þess að gegna nokkurn tíma raunverulegu hlutverki öxuls? Endar þessi stutti ferill um leið og sá sem ætlaði að nota sívalninginn sem öxul hættir við áætlun sína eða heldur hluturinn alltaf áfram að vera öxull í krafti löngu gleymdrar áætlunar?

Þetta dæmi af öxlum og teinum ætti að sýna að skilgreining á hlutum með tilliti til hlutverks þeirra getur orðið bæði flókin og umdeilanleg. Ef öxlar eru skilgreindir með tilliti til raunverulegs hlutverks síns neyðumst við til að hafna því að ýmsir hlutir sem okkur virðast augljóslega vera öxlar standa ekki undir því nafni. Ef öxlar eru skilgreindir með tilliti til ætlaðs hlutverks verður skilgreiningin mjög loðin og óljós þar sem áætlanir geta verið bæði óljósar og hverfular. Eftir tilraun á borð við þessa er því ekki að furða að margir grípi til þess örþrifaráðs að segja: „Ég þekki öxul þegar ég sé hann.”

Heimild:

Árni Böðvarsson (ritstj.) 1983 (2. útg.), Íslensk orðabók handa skólum og almenningi, Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

25.3.2001

Spyrjandi

Hlynur Sveinsson, Ingvar Árnason
og Þorgrímur Þorgrímsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvenær verður teinn að öxli?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1421.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 25. mars). Hvenær verður teinn að öxli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1421

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvenær verður teinn að öxli?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1421>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær verður teinn að öxli?
Þessa spurningu má skilja á mismunandi vegu. Til dæmis ræðst það af því hvernig orðin teinn og öxull eru túlkuð. Sumir telja til dæmis að sverleiki ráði því hvort sívalningur kallast öxull eða teinn. Spurningunni um hvernig greina skuli öxla frá teinum með tilliti til sverleika hefur verið svarað hér af Ólafi Páli Jónssyni. Svar Ólafs Páls gæti í raun, að breyttu breytanda, einnig verið svar við spurningum á borð við „Hvenær verður hóll að fjalli?” eða „Hvenær verður barn unglingur?”.

Spurninguna „Hvenær verður teinn öxull?" má einnig skilja sem spurningu um skilgreiningu á hlutverki þess teins sem kalla má öxul. Þá er gert ráð fyrir að hver sá teinn sem kallast getur öxull gegni ákveðnu hlutverki. Spyrjendur leggja til eftirfarandi skilgreiningu: „Þegar teinn er farinn að flytja afl frá einum enda til annars er hann orðinn öxull." Þessa skilgreiningu mætti ef til vill víkka út að vissu marki. Í Íslenskri orðabók er til dæmis talað um öxul sem snúningsás eða möndul. Segja má því að öxull sé teinn eða ás sem snýst eða sem eitthvað snýst um. Hann flytur þá ýmist afl frá einum enda til annars eða frá öxli til hjóls eða milli hjóla. Við getum þá sagt: „Þegar teinn er farinn að flytja afl með því að snúast (hvort heldur frá einum enda til annars, til hjóls eða milli hjóla) er hann orðinn öxull.”

Þar sem þetta er sett fram sem skilgreining á öxli má gera ráð fyrir að hún skuli gilda á hinn veginn líka; það er að teinn sem ekki sé farinn að flytja afl með því að snúast geti ekki verið orðinn að öxli.

Helsti gallinn við að skilgreina öxla á þennan hátt er sá að ef teinn verður ekki öxull fyrr en hann fer að flytja afl með því að snúast verður ómögulegt að tala um öxla sem ekki hafa verið teknir í notkun enn. Ef farið er í varahlutaverslun og spurt um nýjan öxul ætti varahlutasalinn, ef hann vill gæta fullrar nákvæmni í orðnotkun, að segja: „Þar sem við seljum aðeins ónotaða hluti hér seljum við enga öxla. Ég get hins vegar selt þér tein sem hæfur er til að verða öxull ef þú kemur honum fyrir á réttan hátt." Mat sitt á því hvaða teinar eru hæfir til að verða öxlar gæti varahlutasalinn svo kannski að einhverju leyti byggt á svari Ólafs Páls Jónssonar um greinarmun á teinum og öxlum út frá sverleika.

Einnig má spyrja hvort þessi skilgreining feli í sér að teinn hætti að vera öxull um leið og hann hættir að flytja afl með því að snúast, og þá hvort ómögulegt sé að tala um öxul á kyrrstæðum hlut. Er kannski nóg að teinninn hafi einhvern tíma fullnægt þessu skilyrði þótt hann geri það ekki lengur eða ekki þessa stundina?

Til að forðast þennan vanda má reyna að gera skilgreininguna sveigjanlegri. Í stað þess að gera þá kröfu að teinninn flytji í raun og veru afl frá einum enda til annars má segja sem svo að hver sá teinn sem ætlað er það hlutverk að flytja afl með því að snúast skuli teljast öxull. Þá veltur það hvort teinn verður öxull eingöngu á hugmyndum þeirra sem smíða hann eða þeirra sem ætla sér að nota hann. Sívalningur sem framleiddur er sérstaklega í þeim tilgangi að flytja seinna meir afl á þann hátt sem lýst hefur verið er þá öxull, hvort sem hann er nokkurn tíma notaður eður ei.

Í framhaldi af þessu má auðvitað benda á að tilgangur með framleiðslu hluta liggur ekki alltaf fyrir. Við getum vel hugsað okkur að í verksmiðju nokkurri séu framleiddir stálsívalningar sem nothæfir eru á mismunandi vegu. Sumir þessara teina, sem allir eru eins, eru á endanum notaðir sem öxlar en aðrir ekki. Eru þessir sívalningar þá allir öxlar um leið og þeir hafa verið framleiddir eða verða aðeins sumir þeirra öxlar um leið og einhver hefur ákveðið að nota þá á þann hátt? Ef stálsívalningur sem framleiddur er í óljósum tilgangi verður öxull um leið og einhver ákveður að nota hann sem öxul, hvað gerist þá ef sá hinn sami hættir svo við að nota hann sem öxul áður en hann tekur hann í notkun? Á sívalningurinn sér þá stuttan feril sem öxull án þess að gegna nokkurn tíma raunverulegu hlutverki öxuls? Endar þessi stutti ferill um leið og sá sem ætlaði að nota sívalninginn sem öxul hættir við áætlun sína eða heldur hluturinn alltaf áfram að vera öxull í krafti löngu gleymdrar áætlunar?

Þetta dæmi af öxlum og teinum ætti að sýna að skilgreining á hlutum með tilliti til hlutverks þeirra getur orðið bæði flókin og umdeilanleg. Ef öxlar eru skilgreindir með tilliti til raunverulegs hlutverks síns neyðumst við til að hafna því að ýmsir hlutir sem okkur virðast augljóslega vera öxlar standa ekki undir því nafni. Ef öxlar eru skilgreindir með tilliti til ætlaðs hlutverks verður skilgreiningin mjög loðin og óljós þar sem áætlanir geta verið bæði óljósar og hverfular. Eftir tilraun á borð við þessa er því ekki að furða að margir grípi til þess örþrifaráðs að segja: „Ég þekki öxul þegar ég sé hann.”

Heimild:

Árni Böðvarsson (ritstj.) 1983 (2. útg.), Íslensk orðabók handa skólum og almenningi, Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

...