Hér er jafnframt svarað spurningum sama efnis frá Hlyni Sveinssyni og Þorgrími Þorgrímssyni.Setjum sem svo að það sem greini teina og öxla í sundur sé sverleikinn, teinar eru mjóir en öxlar sverari. Hugsum okkur nú að við höfum fyrir framan okkur 100 stálsívalninga, sá mjósti er 1 cm í þvermál, sá næsti um 4 mm sverari, og svo koll af kolli þangað til við komum að þeim síðasta sem er þá um 5 cm í þvermál. Nú getum við spurt eftirfarandi spurningar:
Hvaða sívalningur er sverasti teinninn og hver er mjósti öxullinn?Ef við getum svarað þessari spurningu þá höfum við svar við því hvenær teinn verður að öxli. Vandinn er hins vegar sá að það virðist ekki vera rétt að segja til dæmis um sívalning 30 að hann sé sverasti teinninn frekar en sívalningur 31, og raunar virðist alveg sama hvaða sívalning við köllum sverasta teininn, það virðist jafn rétt að segja að sá næsti við hliðina sé sverasti teinninn. Þetta er vandamál vegna þess að það getur bara einn teinn verið sverasti teinninn. Sömu sögu er að segja ef við spyrjum hvaða sívalningur sé mjósti öxullinn. Það er enginn einn sem er mjósti öxullinn frekar en sá við hliðina. Nú er vinsælast meðal heimspekinga að líta svo á að vandamál eins og þetta sýni að orð eins og „teinn" og „öxull" hafi einungis óljósa merkingu. Orðin hafa merkingu vegna þess að til eru sívalningar sem eru augljóslega teinar og aðrir sem eru augljóslega ekki teinar. Og sömu sögu er að segja um öxla. Aftur á móti er merkingin óljós þar sem ekki eru skýrt afmörkuð skil milli þess hvað orðið „teinn" á við um og hvað orðið „öxull" á við um. Hugmyndin bak við þessa afstöðu er tvíþætt: (i) Orð hljóti merkingu sína af háttalagi fólks, og þá einkum því hvernig fólk notar tungumálið; (ii) hins vegar sé ekkert í háttum Íslendinga (þar sem „teinn" og „öxull" eru orð í íslensku) sem segir til um að einn sívalningur skuli vera sverasti teinninn en sá næsti skuli vera mjósti öxullinn. Því er svo stundum bætt við að það væri kraftaverki líkast ef merkingin væri ekki óljós í þessum skilningi. Hvernig mætti það vera að Íslendingar væru svo grandvarir í notkun sinni á orði eins og „teinn" að einn stálsívalningur væri réttnefndur teinn en annar sívalningur, kannski ekki nema 1 mm sverari, væri ekki teinn? Þessa spurningu má einnig skilja á annan veg. Sjá annað svar við henni hér.