Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aralvatn, sem staðsett er á landamærum Kasakstan og Úsbekistan í Mið-Asíu, var um miðja síðustu öld fjórða stærsta vatn í heimi, þá 68 þúsund ferkílómetrar að stærð. Árið 1960 ákváðu stjórnvöld í Sovétríkjunum að beina framburði Syr Darya og Amu Darya fljótanna úr sínum hefðbundna farveg og yfir á ræktarsvæði sem þá var verið að koma á fót austur af Aralvatni. Þessar ár eru langstærstar þeirra fljóta sem falla í Aralvatn og er mikilvæg uppspretta ferskvatns í vatnið þannig að seltujafnvægi hlýst af. Byggðar voru miklar stíflur í báðum fljótunum og fjöldi áveituskurða beindu vatninu á bómullarekrurnar. Fljótlega eftir að framkvæmdum lauk fór Aralvatn að minnka og gerir enn eins og má sjá á myndinni hér að neðan.
Rúmmál Aralvatns hefur minnkað um 75%.
Áhrif þessara áveituframkvæmda fyrrum Sovétstjórnvalda eru gríðarleg, bæði á mannlíf og vistkerfi svæðisins. Mælingar hafa nú sýnt að heildarrúmmál Aralvatns á árunum 1960 til 1995 hefur minnkað um 75%. Vatnsyfirborðið lækkaði um 17 metra og saltmagn vatnsins stórjókst; flestar tegundir sem í vatninu lifðu þoldu ekki hið ramma saltumhverfi vatnsins og drápust.
Fiskveiðarnar sem voru máttarstólpinn í efnahagslífi strandbæjanna við vatnið hrundu til grunna auk þess sem strandlengjan hefur færst um tugi kílómetra við minnkun vatnsins. Vegna minnkunar Aralvatns hefur það á síðari tímum skipst upp í tvö vötn, Bolshoi Aral og Maly Aral (eða Norður-Aral).
Gríðarlegar saltsléttur hafa myndast þar sem vatnið lá áður fyrr og hefur það skapað ýmis heilsufarsvandamál fyrir íbúa svæðisins. Talið er að í dag fjúki af svæðinu um 100 miljón tonn af saltryki sem í bland við ýmis áburðarefni og skordýraeitur auki líkur á ýmsum sjúkdómum hjá íbúum svæðisins. Tíðni barnadauða hefur á undanliðnum árum verið hvað hæstur á svæðunum við Aralvatn eða 75 börn á hverjar 10.000 auk þess sem nýrna-, lifra- og ýmsir blóð- og hjartasjúkdómar eru einnig mun algengari á þessum slóðum en öðrum svæðum fyrrum Sóvétríkjanna, og jafnvel víðar.
Mikið er um strönduð skip á Aral-svæðinu eftir að vatnið minnkaði.
Þessar framkvæmdir Sovétyfirvalda eru sjálfsagt eitt mesta umhverfisslys sem þáverandi stjórnvöld hafa gert sig seka um. Eftir að Kasakstan og Úsbekistan urðu sjálfstæð hafa þarlend stjórnvöld ljáð máls á að hleypa einhverju ferskvatni í Aralvatn. Bómullar- og hrísgrjónaakrarnir, sem voru settir á laggirnar í hinum miklu framkvæmdum fyrir rúmum 40 árum, eru þessum svæðum hins vegar nú svo mikilvægir í efnahagslegu tilliti að vonlaust er að leyfa ánum Syr Darya og Amu Darya að renna óhindrað í Aralvatn að nýju.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Hver er staðan með Aralvatn í dag?“ Vísindavefurinn, 21. júlí 2010, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=14106.
Jón Már Halldórsson. (2010, 21. júlí). Hver er staðan með Aralvatn í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=14106
Jón Már Halldórsson. „Hver er staðan með Aralvatn í dag?“ Vísindavefurinn. 21. júl. 2010. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=14106>.