Fanggæslunafnið bendir á, að fyrrum hafi störf konu þessarar verið önnur og meiri en á seinni tímum. Áður fyrr var fiskur hertur og hefur þá þurft að gæta hans, meðan menn voru á sjónum. Störf fanggæslunnar á seinni tímum voru að sjá um matargerð og hirða verbúðina, þvo og hirða sjóvettlinga og önnur þau plögg áhafnarinnar er þurfti með. Þessi síðari verkþáttur hélst hér þar til 1934 að almennt var hætt að hafa fanggæslur.

Endurgerð verbúið í Ósvör í Bolungarvík. Öldum saman fylgdu fanggæslur vermönnum í verbúðir. Kaup fanggæslunnar var þannig að hún fékk stærsta þorskinn sem á skip kom í hverjum róðri, og þar að auki einn vænan fisk af hverjum hundrað fiskum, sem framyfir var eitt hundrað.
Erlendra beykja á Íslandi er fyrst getið á 17. öld og er álitið að þeir hafi fyrst komið með einokunarkaupmönnunum. Þeir munu flestir hafa verið danskir, en íslendingar fóru fljótlega að læra iðnina. Meðal nafnkenndra íslenskra beykja má nefna skáldin Sigurð Breiðfjörð og Jón Magnússon. Gerðar voru strangar kröfur um efnisþekkingu og verkkunnáttu beykjanna. Beykjastéttin á Íslandi varð aldrei mjög fjölmenn, enda var lítið um nýsmíði. Fyrst og fremst var um að ræða samsetningu og frágang á tunnum. Líklega hefur beykjarastéttin verið stærst um 1930, en þá voru samkvæmt manntali 117 sjálfstæðir beykjar, sveinar og nemar í iðninni.

Beykir að störfum á Tyskebryggen í Bergen í Noregi í byrjun síðustu aldar. Árið 1930 voru á Íslandi 117 beykjar, sveinar og nemar í iðninni.
Annars voru lífskjör þeirra, sem höfðu vatnssókn að ævistarfi bágborin. Kaupið mun hafa verið 1-4 krónur fyrir húsið á mánuði, eftir því hve vatnsþörf þeirra var mikil, og er auðsætt að eigi urðu það há laun en af þeim átti fólki að sjá sér farborða. Flest af þessu fólki voru einstæðingar í orðsins fyllstu merkingu, og margir urðu að hlíta vatnssókninni vegna þess, að þeir höfðu ekki burði til annarra stritvinnu. Ekki þó svo að skilja, að eigi hafi nægjanlegt strit fylgt vatnssókninni í hríðarbyljum, hörkufrostum og fannfergi og á glerhálum stigunum. Sannarlega hafa þeir ekki verið öfundsverðir þessir einstæðingar, sem sáu heimilum Reykvíkinga fyrir frumstæðustu nauðsyninni: vatninu. (Þorsteinn Jónsson, 2011, bls. 55).Vatnsberastarfið lagðist af í Reykjavík árið 1909 þegar vatnsveita var tekin í notkun. Síðasta dæmið sem hér verður nefnt um starf sem ekki er lengur til hér á landi er starf böðulsins. Böðull er maður sem framkvæmir líkamlega refsingu (hýðingu eða líflát) á dæmdum sakamönnum. Slíkar refsingar tíðkuðust á Íslandi öldum saman og voru menn fengnir til þess að framfylgja þeim, stundum fyrir borgun en stundum til að sleppa við refsingu sjálfir. Síðasta aftakan á Íslandi átti sér stað árið 1830 en böðulsstarfið lagðist þó ekki af þá þar sem líkamlegar refsingar voru enn við lýði. Á vef Lögreglunnar er að finna eftirfarandi klausu úr ritinu Lögreglan í Reykjavík sem gefur ákveðna innsýn í starfið:
Hér verður að geta eins starfsmanns, sem að vísu hvorki var lögregluþjónn, né næturvörður og hafði enga löggæzlu á hendi, en starf hans var þó beinlínis í þágu lögreglunnar. Það var böðullinn, og var það hans verk að leggja á líkamlegar hegningar, flengja menn og setja í gapastokk. Þó að þessi starfsmaður væri að vísu fastur, tók hann ekki föst laun, heldur var honum greitt eftir fastri gjaldskrá fyrir hvert verk, og var greiddur ríkisdalur silfurs fyrir að leggja á 10-15 vandarhagga hýðingu, 1 rd. 48 sk. fyrir 16-30 högg, 2 rd. fyrir 2X27 högg, 3 rd. fyrir 3X27 högg og 5 ríkisdalir fyrir kagstrýkingu. Var þetta góð borgun og allmikið að gera hér, en staðan var hins vegar í mjög litlu áliti, og menn sem hana höfðu, völdust því ekki af betri endanum. Böðull Reykjavíkur frá 1803-1838 hét Guðmundur Hannesson … Með konungsbréfi 24. janúar 1838 var svo ákveðið, að þegar búið væri að koma upp typtunarhúsi í Reykjavík, skyldu líkamlegar refsingar afnumdar og vatns- og brauðshengingar takast upp í staðinn, og sama dag var gefið út konungsbréf um að byggja skyldi fangahús í Reykjavík, sem þó komst ekki í framkvæmd fyrr en 1872. Þar með var böðulsstarfi Guðmundar lokið.Böðulsstarfið er ekki dæmi um starf sem lagðist af vegna tækninýjunga eða breytinga á starfsháttum heldur frekar vegna breytinga á viðhorfum og gildum. Þetta á hins vegar ekki við um öll lönd heims því enn tíðkast sum staðar bæði aftökur og líkamlegar refsingar. Heimildir og myndir:
- Fanggæslur í Bolangarvík. Sjómannadagsblaðið, 47. árg. 1984, bls. 45-47.
- Orðalisti beykja og díxilmanna.
- Þorsteinn Jónsson. Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg. Reykjavík, Sögusteinn, 2011.
- Böðull Reykjavíkur | Lögreglan.
- Museo marítimo Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, Islandia, 2014-08-15, DD 059.JPG - Wikimedia Commons. Höfundur myndar Diego Delso. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 30.8.2019).
- Bryggen Tyskebryggen (9213682737) (2).jpg - Wikimedia Commons. Ljósmyndari Anders Beer Wilse. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 30.8.2019).
- Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - 101 Reykjavík. (Sótt 30.8.2019).
Getið þið gefið mér dæmi um störf sem hafa úrelst?