Reynum nú að átta okkur á einhvers konar efri mörkum á hraða geimfars sem knúið er með kjarnaklofnun (nuclear fission). Gerum ráð fyrir að kjarnkleyfa efnið skili af sér einum megawatt-degi af orku á hvert gramm. Þetta jafngildir tæplega 90 GJ af orku á hvert gramm af eldsneyti (1 GJ = 109 J). Gera má ráð fyrir að um þriðjung eldsneytisins sé hægt að kljúfa áður en afurðir kjarnaklofnunar fara að hindra áframhaldandi keðjuverkun. Þá er ljóst að einungis þriðjungur af þessum 90 GJ nýtast okkur, sem sagt 30 GJ. Nú þarf að umbreyta þessum 30 GJ af varmaorku í raforku, en nýtni þess ferlis er um það bil þriðjungur þannig að eitt gramm af kjarnkleyfu efni skilar af sér 10 GJ af nýtanlegri raforku. Það jafngildir því að úr einu kílógrammi af kjarnkleyfu efni megi fá 1 TJ af raforku (1 TJ = 1012 J). Verum nú bjartsýn og gerum ráð fyrir að 20% raforkunnar megi umbreyta í hreyfiorku. Þá fáum við 0,2 TJ af hreyfiorku úr hverju kílógrammi af kjarnkleyfu efni. Kyrrstöðuorka eins kílógramms af massa er reiknuð út frá hinni frægu jöfnu
E = mc2 = 1 kg * (3*108 m/s)2 = 9*1016 J.Kyrrstöðuorkan er mörgum tugaþrepum meiri en hreyfiorkan þannig að ekki þarf að taka tillit til afstæðiskenningarinnar við útreikning á hraða, heldur má nota jöfnu Newtons:
K = mv2/2,þar sem K er hreyfiorka, m massi og v hraði. Til að finna efri mörk á hraðanum má hugsa sér að heildarmassi geimskipsins sé jafn massa eldsneytisins. Þá má finna lokahraðann
v = (2*E/m)1/2 = (2*0,2 TJ/kg)1/2 = 630,000 m/s,en það eru um 0,2% af ljóshraðanum. Það má því vera ljóst að geimför knúin með kjarnaklofnun koma vart til með að ná meira en 1% af ljóshraða. Því verður löng ferð fyrir höndum ef senda skal geimfar til annars stjörnukerfis í ljósi þess að nálægustu stjörnur eru í rúmlega fjögurra ljósára fjarlægð. Slík ferð með hraðanum 0,01 c tæki þá 400 ár. Einhvern tímann í framtíðinni kynni kjarnasamruni (nuclear fusion) hins vegar að gefa meiri möguleika en kjarnaklofnunin, einkum ef takast mætti að nýta hraða eindanna sem myndast við kjarnahvörfin beint til að knýja eldflaugina. Menn hafa einnig bollalagt um að nota andefni í þessum tilgangi og má lesa svolítið um það í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna er andefni lýst sem svo góðu eldsneyti í vísindaskáldskap? Meiri umræðu um geimferðir og hraða er að finna í svari Árdísar Elíasdóttur við spurningunni Geta menn ekki sent geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf í öðrum sólkerfum? Þá má að lokum nefna aðrar hugmyndir um geimferðir sem nýta segul og geislaþrýsting frá sólu, en þar eru menn ekki háðir því eldsneyti sem er um borð.
Mynd: Rússnesk rannsóknarstofnun í eðlisfræði og vélaverkfræði.